Erlent

Hundrað þúsund Brasilíumenn látist í faraldrinum

Andri Eysteinsson skrifar
Eitt hundrað rauðum blöðrum var sleppt á Copacabana ströndinni í Ríó til að minnast hinna látnu.
Eitt hundrað rauðum blöðrum var sleppt á Copacabana ströndinni í Ríó til að minnast hinna látnu. Getty/Anadolu

Faraldur kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum hefur varið hörðum höndum um stærsta ríki Suður-Ameríku, Brasilíu. 

Fjöldi greindra tilfella í landinu er talinn í milljónum og er það einungis í Bandaríkjunum þar sem fleiri tilfelli hafa greinst. Þá var vissum áfanga náð í dag þegar að hundrað þúsundasti Brasilíumaðurinn lést af völdum COVID-19.

Samkvæmt opinberum gögnum frá Brasilíu sem Reuters greinir frá greindust nærri fimmtíu þúsund ný tilfelli veirunnar í ríkinu víðfeðma. Þá létust 905 af völdum veirunnar í gær.

Nýju tilfellin 49.970 færa þá heildarfjöldann í yfir þrjár milljónir eða 3.012.412 og dauðsföllin eru nú orðin 100.447 talsins.

Sextánda júlí síðastliðinn voru skráð tilfelli veirunnar orðin 2 milljónir talsins og um 75 þúsund manns látið lífið. Á meðal þeirra sem þá höfðu smitast af veirunni var forseti landsins Jair Bolsonaro. Sá hefur verið harðlega gagnrýndur í heimalandinu fyrir viðbrögð sín við heimsfaraldrinum.

Klæddist hann iðulega ekki andlitsgrímu á opinberum stöðum þrátt fyrir tilmæli heilbrigðisyfirvalda um slíkt og sótt hann fjöldafundi og studdi mótmælendur sem mótmældu samkomutakmörkunum og hertari sóttvarnaaðgerðum. Dómstólar í Brasilíu gripu að endingu til þess að fyrirskipa forsetanum að klæðast grímu til sóttvarna.

Brátt kemur að því að yfir fimm milljón tilfelli kórónuveirunnar hafi greinst í Bandaríkjunum sem er það land sem er með flest skráð tilfelli. Þar hafa 162 þúsund manns látist. Í þriðja sæti listans yfir ríki þar sem flest staðfest smit er að finna er Indland með rúmar tvær milljónir tilfella.

Alls hafa 19.486.171 tilfelli veirunnar greinst á heimsvísu og hafa tæplega 725 þúsund manns látið lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×