Íslenski boltinn

Telur leikmenn tilbúna að gera það sem til þarf

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Sveinn Geirsson er forseti Leikmannasamtaka Íslands.
Arnar Sveinn Geirsson er forseti Leikmannasamtaka Íslands. Vísir/Vilhelm

Arnar Sveinn Geirsson - forseti Leikmannasamtaka Íslands og hægri bakvörður Fylkis - var í viðtali við Mbl.is þar sem hann segir að leikmenn séu tilbúnir að leggja sitt á vogarskálarnar svo hægt verði að klára Íslandsmótið. 

Eins og staðan er í dag verður að öllum líkindum ekki leikið fyrr en í fyrsta lagi 13. ágúst. Hvort það verði með eða án áhorfenda á eftir að koma í ljós.

„Það eru ekki komin skýr svör frá hvorki KSÍ né ÍSÍ varðandi hvernig æf­ingar eiga að fara fram. Ég er enginn sérfræðingur í þessu en miðað við hvernig þetta var síðast þegar það var sett tveggja metra regla voru æfing­ar ekki leyfðar nema með ströngum skilyrðum,“ sagði Arnar við Morgunblaðið.

KSÍ mun funda með yfirvöldum eftir helgi og þá er Guðni Bergsson, formaður KSÍ, bjartsýnn á að mótið verði klárað.

Arnar segir að leikmenn séu ekki beint æstir í að fara aftur í sama pakka og í vor.

„Menn eru svartsýnir, sérstaklega í ljósi þess að þessi tími var ekkert sérstaklega skemmtilegur. Maður var að æfa einn eða kannski með einum eða tveimur öðrum í einhverjum hlaupaæfingum.“

„Maður veit ekkert hvað þetta varir lengi. Nú er búið að herða samkomubann í tvær vikur og KSÍ búið að fresta leikjum til 5. ágúst en það hefur enga aðra merkingu en að staðan verður tekin aftur þá,“ sagði Arnar einnig.

„Ég held að leikmenn liðanna séu tilbúnir að gera það sem þarf til að klára mótið. Það er auðvitað ekki jafn skemmtilegt án áhorfenda. Ég held það sé vilji allra að spila en svo er spurning hvort félögin geta það. Geta þau haldið leiki og verið með fólk í gæslu þegar engar tekjur koma inn,“ sagði Arnar að lokum.


Tengdar fréttir

„Af hverju mega vera 100 manna samkomur en það má ekki æfa fótbolta?“

Mikil umræða skapaðist í Mjólkurbikarmörkunum í gærkvöld þar sem farið var yfir alla leiki 16-liða úrslita, sem búnir eru. Einnig skapaðist mikil umræða í kringum frestun leikja og æfinga ásamt því hvernig skyldi tækla það sem eftir er af Íslandsmótinu í knattspyrnu.

Klara: Dagsetningin kom okkur í opna skjöldu

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að dagsetningin sem ÍSÍ gaf út í dag; að hlé yrði gerð á æfingu og keppni 13. ágúst, sé ekki sú sem vonast var eftir en segir að heilsa landans sé í fyrsta sæti.

Telur knattspyrnulið áfram geta æft

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, telur að æfingar knattspyrnuliða geti farið fram með sama hætti og undanfarnar vikur þrátt fyrir hertar aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×