Erlent

Johnson hvetur Breta til að megra sig

Kjartan Kjartansson skrifar
Johnson segist hafa misst rúmlega sex kíló frá því að hann veiktist af Covid-19 í vor. Hann hafi verið í yfirþyngd.
Johnson segist hafa misst rúmlega sex kíló frá því að hann veiktist af Covid-19 í vor. Hann hafi verið í yfirþyngd. Vísir/EPA

Bretar ættu að „grenna sig aðeins“ að mati Boris Johnson, forsætisráðherra en ríkisstjórn hans ætlar að grípa til aðgerða gegn því sem þau telja offitufaraldur í landinu. Vísar Johnson til eigin reynslu af glímu við aukakílóin og Covid-19-veikindi til þess að styðja átakið.

Auglýsingar fyrir skyndibita verða bannaðar fyrir klukkan 21:00 á kvöldin og tveir fyrir einn tilboð á ruslfæði sömuleiðis með herferð ríkisstjórnarinnar sem gengur undir heitinu „Betri heilsa“. Veitingastöðum verður einnig gert að láta hitaeiningafjölda fylgja á matseðlum. Ríkisstjórnin lýsir offituvandamáli þjóðarinnar sem „tímasprengju“.

Johnson sagði í myndskeiði sem hann birti á Twitter-síðu sinni til að kynna átakið að hann hefði verið í ofþyngd þegar hann greindist með nýtt afbrigði kórónuveirunnar í vor.

„Ég hef alltaf viljað léttast heillengi og eins og margir aðrir átti ég í vandræðum með þyngdina, ég sveiflast upp og niður. Frá því að ég náði mér af kórónuveirunni hef ég stöðugt bætt formið mitt,“ sagði Johnson.

Upplýsti forsætisráðherrann að hann hefði misst meira en sex kíló eftir veikindin. Hann hlypi nú á hverjum degi. Sagðist hann vonast til þess að fólk teldi herferðina ekki of mikla forsjárhyggju, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Bresk lýðheilsuyfirvöld vöruðu við því í síðustu viku að þeir sem eru of þungir eða þjást af offitu séu í mun meiri hættu áð veikjast alvarlega af kórónuveirunni en aðrir. Þeir séu líklegri til að látast af völdum sjúkdómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×