Erlent

Trump aflýsir landsþingi Repúblikana

Andri Eysteinsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Bandaríkjaforseti hefur tekið ákvörðun um að aflýsa landsþingi Repúblikanaflokksins sem átti að fara fram í Flórída í lok ágúst.

„Þetta er ekki rétti tíminn,“ sagði Trump sem tók þó fram að hann muni flytja ræðu, líkt og forsetaframbjóðanda flokksins er tamt, þó með öðrum hætti en áður.

Þingið átti í fyrstu að fara fram í borginni Charlotte í Norður-Karólínu en var fært til Jacksonville í Flórída vegna sóttvarnartakmarkana í Norður-Karólínu. Þó að viðburðum í Jacksonville hafi verið aflýst munu kjörmenn flokksins koma saman í Charlotte og tilnefna Trump eftir kúnstarinnar reglum.

Forsetinn greindi frá þessu á blaðamannafundi sínum í Hvíta húsinu. Lögreglustjórinn í Jacksonville hafði í vikunni greint frá skoðun sinni á því að landsþingið yrði haldið. Sagði hann að borgin væri ekki til í slík veisluhöld í næsta mánuði.

Á landsþinginu mun Trump taka formlega við stöðu frambjóðanda Repúblikanaflokksins fyrir kosningarnar í nóvember þar sem hann mun mæta Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins. Biden mun formlega hljóta útnefningu Demókrata á landsþingi flokksins í Milwaukee sem haldið verður með mun smærra sniði í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×