Íslenski boltinn

Afturelding bjargaði stigi í Grindavík og Þróttur náði í sitt fyrsta stig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik hjá Grindavík í Pepsi Max deildinni síðasta sumar.
Úr leik hjá Grindavík í Pepsi Max deildinni síðasta sumar. Vísir/Bára

Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í fótbolta í kvöld. Lauk þeim báðum með 2-2 jafntefli. Í báðum leikjum kom mark í uppbótartíma.

Í Grindavík voru Mosfellingar í heimsókn. Sigurður Bjartur Hallsson kom heimamönnum yfir eftir aðeins tveggja mínútna leik en Andri Freyr Jónasson jafnaði metin aðeins sex mínútum síðar. Þannig var staðan allt fram á 66. mínútu þegar Stefán Ingi Sigurðarson kom Grindavík aftur yfir.

Það stefndi í sigur Grindvíkinga en í uppbótartíma jafnaði Jason Daði Svanþórsson metin fyrir gestina og lokatölur því 2-2. Liðin eru í 7. og 8. sæti með 10 stig hvort en Afturelding er hins vegar með töluvert betri markatölu og því ofar í deildinni.

Í Laugardalnum var Fram í heimsókn hjá Þrótti. Heimamenn voru án stiga og höfðu ekki skorað síðan í fyrstu umferð mótsins. 

Þórir Guðjónsson kom gestunum yfir með marki úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og því á brattann að sækja fyrir Þróttara. Birkir Þór Guðmundsson jafnaði óvænt metin á 82. mínútu fyrir heimamenn og spænski framherjinn Esau Rojo Martinez skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið á 90. mínútu. 

Það stefndi því allt í fyrsta sigur Þróttar í sumar. Það er að segja allt þangað til Gunnlaugur Hlynur Birgisson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjuleguan leiktíma. 

Lokatölur þar því einnig 2-2 og Þróttur loks komið á blað í Lengjudeildinni.

Fram er í 4. sæti með 14 stig á meðan Þróttur situr í 11. sætinu eða því næst neðsta með eitt stig.

Markaskorarar fengnir af Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×