Viðskipti innlent

Gjaldþrotum fjölgað um 23 prósent milli ára

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flest fyrirtæki sem fóru í þrot voru í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð.
Flest fyrirtæki sem fóru í þrot voru í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð. Vísir/Vilhelm

Næstum 100 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta í nýliðnum júnímánuði, ef marka má samantekt Hagstofunnar. Um 550 fyrirtæki hafa þar með verið tekin til gjaldþrotaskipta það sem af er ári og er það fjölgun um næstum fjórðung frá því í fyrra. Hagstofan birtir að jafnaði tölur um gjaldþrot fyrirtækja 30 dögum eftir að mánuði lýkur, en þá hefur stærstur hluti gjaldþrotabeiðna verið skráður í fyrirtækjaskrá Skattsins.

Af þeim 97 fyrirtækjum sem sögð eru hafa orðið gjaldþrota í júní voru 48 „með virkni“ í fyrra. Það þýðir að þau hafi annað hvort verið með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum.

Þegar litið er til fyrri helmings þessa árs hafa 546 fyrirtæki verið tekin til gjaldþrotaskipta, þar af voru 222 þeirra virk árið 2019 sem er 23 prósent aukning frá því í fyrra. Flest virku fyrirtækjanna sem fóru í þrot voru í byggingastarfsemi (65), því næst í viðgerðum á vélknúnum ökutækjum (49), heild- og smásöluverslun (41) og restin skiptist á milli annarra flokka (67).

Hagstofan tiltekur jafnframt að fyrirtæki sem urðu gjaldþrota á fyrri helmingi ársins hafi að jafnaði verið með 1991 launþega í fyrra og veltu upp á næstum 19 milljarða króna. „Þetta eru mun lægri tölur en fyrir gjaldþrot á fyrri helmingi ársins 2019, sem skýrist af gjaldþroti WOW Air í mars 2019,“ segir Hagstofan.

Hagstofan





Fleiri fréttir

Sjá meira


×