Íslenski boltinn

Heimir Guðjónsson: Fannst þetta ekki vera rán

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimir var sáttur með sigurinn í gær og taldi ummæli Óskars Hrafns um rán ekki alveg eiga rétt á sér.
Heimir var sáttur með sigurinn í gær og taldi ummæli Óskars Hrafns um rán ekki alveg eiga rétt á sér.

Heimir Guðjónsson var sáttur með sigur sinna manna í Val á Kópavogsvelli í gærkvöld en hann væri þó til í að ná í fleiri stig á heimavelli. Sigurinn þýðir að Valur er komið upp í 2. sæti Pepsi Max deildar karla í fótbolta, tveimur stigum á eftir Íslandsmeisturum KR.

„Frábær stemning á leiknum og stuðningsmenn Vals létu vel í sér heyra – sem þeir hafa gert frá því mótið byrjaði – og það hefði verið ömurlegt að fara heim með tap,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, er hann ræddi við þá Kjartan Atla Kjartansson og Tómas Inga Tómasson í Pepsi Max tilþrifunum eftir leikinn í gærkvöld.

Óskar Hrafn Þorvaldsson – þjálfari Blika – talaði um að sigur Vals hefði verið þjófnaður eftir leik. Heimir var spurður út í þau ummæli.

„Mér fannst þetta ekki vera rán en auðvitað áttu þeir sína möguleika. Ég man samt ekki eftir því að Hannes [Þór Halldórsson, markvörður liðsins] hafi þurft að taka á honum stóra sínum. En eins og ég sagði áðan þá eru þeir frábærir út á vellinum, láta boltann ganga hratt á milli manna en mér fannst þeir ekki skapa mikið af opnum færum á móti okkur.“

Hannes Þór var frábær í marki Vals í gær.Vísir/HAG

„Hann hefur gott hugarfar og er góður á ákveðnum stöðum á vellinum – betri en flestir,“ sagði Heimir um Kristinn Frey Sigurðsson.

„Auðvitað viltu gera betur á heimavelli. Segir sig sjálft að við höfum aðeins fengið eitt stig af níu mögulegum. Höfum verið klaufar eins og á móti Stjörnunni þar sem við fengum tækifæri til að gera út um leikinn en gerðum það ekki. Útivallarárangurinn hefur verið fínn en við þurfum að bæta heimavallarárangurinn því maður vill gera heimavöllinn að gryfju,“ sagði Heimir um leiki Vals til þessa í sumar.

„Ég held að það sé alveg á hreinu. Við höfum séð það í leikjunum – sem er reyndar jákvætt þar sem leikirnir hafa verið opnari en gengur og gerist í fyrstu umferðinum. Meira um varnarmistö og verið að gefa auðveld mörk. Liðin eiga eftir að bæta sig þegar líður á,“ var svarið þegar Heimir var spurður út í muninn á sumrinu í ár og áður eftir allt sem hefur gengið á.

Hversu sáttur er Heimir með 13 stig úr sjö leikjum spurði Tómas Ingi.

„Fimmtán eða sextán hefði ég verið sáttur við en við tökum þrettán og höldum áfram. Einn leikur í einu,“ sagði Heimir að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×