Viðskipti innlent

Segjast hafa breytt orðalagi að beiðni FFÍ fyrir undirritun

Kristín Ólafsdóttir og Birgir Olgeirsson skrifa
Úlfar Steindórsson stjórnarformaður Icelandair og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Úlfar Steindórsson stjórnarformaður Icelandair og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/vilhelm

Icelandair segist hafa orðið við beiðni Flugfreyjufélags Íslands um breytingu á orðalagi áður en kjarasamningur milli félaganna var undirritaður. Það sé því ekki rétt að Icelandair hafi neitað að verða við beiðni um leiðréttingu, líkt og fram kom í tilkynningu sem stjórn og samninganefnd FFÍ sendi félagsmönnum sínum eftir að skrifað var undir samninginn í lok júní.

Vísir greindi frá því í dag að stjórn og samninganefnd FFÍ hefði sent félagsmönnum sínum tilkynningu þar sem gengist var við mistökum við undirritun kjarasamningsins. Félaginu hafi yfirsést breytingar á orðalagi tveggja ákvæða í samningnum, annars vegar ákvæði um aukafrídag flugfreyja 60 ára og eldri og hins vegar svokallaða sex daga reglu.

Einnig sagði í tilkynningunni að samninganefnd Icelandair hefði ekki verið reiðubúin að gera þær breytingar á orðalagi sem FFÍ teldi nauðsynlegar. Þá hefðu það jafnframt verið mikil vonbrigði að Icelandair hafi hafnað beiðni um leiðréttingu.

Í svari Icelandair við fyrirspurn fréttastofu um tilkynningu FFÍ er því hafnað að Icelandair hafi neitað að verða við beiðni um leiðréttingu. Umræddar breytingar á orðalagi hafi jafnframt ekki haft áhrif á merkingu ákvæðanna en „sýna glögglega að þessi atriði voru vel ígrunduð af hálfu Flugfreyjufélagsins áður en gengið var til undirritunar,“ segir í svari Icelandair.

Icelandair segir fyrra ákvæðið, sem varðar minni vinnuskyldu þeirra flugfreyja sem náð hafa ákveðnum aldri og starfsreynslu, hafa verið hluta af þeim tilboðum sem samninganefnd Icelandair lagði fram á síðustu vikum samningalotunnar.

„Ákvæðið var skýrt orðað og engin ástæða til að ætla að það hafi verið misskilið,“ segir Icelandair.

Í aðdraganda undirskriftar samningsins þann 25. júní hafi komið fram athugasemd frá samninganefnd Flugfreyjufélagsins um endanlegt orðalag ákvæðisins. Samninganefnd Icelandair hafi orðið við beiðni Flugfreyjufélagsins um þessa breytingu á orðalagi og skrifað hafi verið undir samninginn með því orðalagi.

Hitt ákvæði samningsins sem fjallað er um í fréttinni varðar fjölda samfelldra vinnu- og hvíldardaga. Icelandair segir samninganefnd sína hafa lagt mikla áherslu á að ákvæði um vinnu- og hvíldartíma flugfreyja yrði samræmt samsvarandi ákvæðum í samningi flugmanna félagsins, „enda torveldar það mjög skipulagningu flugs að þessar reglur skuli ekki vera samhljóma,“ segir Icelandair.

Þetta, líkt og fyrra ákvæðið, hafi verið kynnt félagsmönnum FFÍ í framhaldi af tilboði Icelandair sem lagt var fram 10. maí síðastliðinn.

„Eins og með fyrra ákvæðið sem fjallað var um í fréttinni kom fram athugasemd frá samninganefnd Flugfreyjufélagsins um endanlegt orðalag ákvæðisins fyrir undirritun. Samninganefnd Icelandair varð við beiðni Flugfreyjufélagsins um þessa breytingu og var skrifað undir samninginn með því orðalagi sem Flugfreyjufélagið hafði óskað eftir,“ segir í tilkynningu Icelandair.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×