Innlent

Ingi­björg Sól­rún verð­ur ekki for­stjór­i Lýð­ræð­is- og mann­rétt­ind­a­stofn­un­ar­inn­ar á­fram

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, mun láta af störfum sem forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE en hún hefur gengt starfinu undanfarin þrjú ár og hafði lýst yfir áhuga á að gera það áfram samkvæmt frétt RÚV.

Ingibjörg Sólrún var ráðin forstjóri stofnunarinnar fyrir þremur árum síðan á sama tíma og tveir aðrir forstjórar hjá stofnunum ÖSE og nýr framkvæmdastjóri tóku við. Ráðningarnar héldust allar í hendur og framlenging á starfssamningi þeirra átti að gera það sömuleiðis.

Fimmtíu og sjö aðildarríki eru innan ÖSE en á fundi þeirra á dögunum var ákveðið að fjórmenningarnir myndu ekki starfa áfram fyrir stofnunina. Þau munu því öll fjögur láta af störfum á laugardaginn næstkomandi þegar ráðningartími þeirra rennur út.

Fulltrúar Aserbaídsjan og Tadsíkistan mótmæltu því á dögunum að Harlem Désir, forstjóri stofnunar ÖSE sem stendur vörð um fjölmiðlafrelsi, héldi áfram störfum. Samtök evrópskra blaðamanna sendu frá sér yfirlýsingu í kjölfarið og sögðu þau ákvörðun ríkjanna um að lýsa yfir vantrausti til þess fallin að grafa undan fjölmiðlafrelsi. Þá lýstu Tadsíkar og Egyptar yfir ósætti með störf Ingibjargar Sólrúnar og óskuðu eftir því að hún héldi ekki áfram störfum sem forstjóri lýðræðis- og mannréttindastofnunarinnar. Ástæðan sem gefin var var sú að Ingibjörg hafi ekki beitt sér fyrir því að loka fundum stofnunarinnar fyrir frjálsum félagasamtökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×