Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir 0-3 Grótta | Grótta vann sinn fyrsta leik í efstu deild frá upphafi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ástbjörn Þórðarson í leik gegn Fylki.
Ástbjörn Þórðarson í leik gegn Fylki. vísir/vilhelm

Grótta vann í kvöld sinn fyrsta sigur í efstu deild í knattspyrnu frá upphafi. Þeir unnu öruggan 3-0 sigur á Fjölni í Grafarvogi og eru komnir með fjögur stig í Pepsi Max-deildinni.

Fjölnismenn byrjuðu leikinn ágætlega og fengu hálffæri strax eftir þrjár mínútur. Eftir því sem leið á hálfleikinn unnu Seltirningar sig hins vegar inn í leikinn og voru hættulegri án þess þó að skapa sér neitt dauðafæri.

Leikmenn Fjölnis buðu Gróttuliðinu oft í skyndisóknir eftir óvandaðar sendingar og slæmar ákvarðanir þegar þeir voru í sóknaruppbyggingu en gestirnir náðu ekki að nýta ágætar stöður nógu vel.

Í síðari hálfleik var Grótta hins vegar með yfirburði. Karl Friðleifur Gunnarsson kom þeim yfir á 57.mínútu og tíu mínútum síðar kom Halldór Kristján Baldursson þeim í 2-0 eftir slakan varnarleik heimamanna.

Þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka setti Pétur Theódór Árnason svo punktinn yfir i-ið með góðu marki og sigurinn tryggður.

Af hverju vann Grótta?

Leikmenn Gróttu voru grimmari, einbeittari og betri í þessum leik. Þeir unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn og náðu öllum tökum á honum í síðari hálfleik. Þeir keyrðu yfir Fjölnismenn sem spiluðu illa í kvöld og gerðu klaufaleg mistök hvað eftir annað.

Varnarleikur Gróttu var þéttur og greinilegt að Ágúst hefur unnið vel í honum eftir að þeir fengu á sig fjögur mörk gegn HK í síðustu umferð.

Þessir stóðu upp úr:

Hjá Gróttu var Kristófer Orri Pétursson ógnandi á meðan hann var inná og Arnar Þór Helgason og Halldór Kristján mjög öflugir í miðju varnarinnar. Sigurvin á miðjunni var sívinnandi og það sama má segja um flesta leikmenn liðsins í dag sem lögðu hjarta og sál í þetta verkefni.

Hjá Fjölni er eiginlega ekki hægt að taka neinn út fyrir sviga. Liðið átti slæman dag og það einfaldlega má ekki í þessari deild, sama hverjum þú ert að mæta.

Hvað gekk illa?

Það var ekki margt sem gekk vel hjá Grafarvogspiltum. Einfaldar sendingar fóru á andstæðing, spilið var hægt og oftar en ekki einhæft. Nýju erlendu leikmennirnir sýndu afskaplega lítið og miðað við þennan leik styrkja þeir liðið ekki.

Ásmundur Arnarsson þjálfari sagði að leikmenn Fjölnis hefðu ekki verið sjálfum sér líkir. Við skulum vona að það sé rétt því ef þeir sýna svona frammistöðu oft í sumar munu þeir ekki næla í mörg stig.

Hvað gerist næst?

Fjölnir heldur til Akureyrar og á leik gegn KA á hinum umtalaða Greifavelli. Annar sex stiga leikur og tap þar, sem yrði þá hið fimmta í röð, myndi gera stöðu liðsins ansi erfiða.

Grótta á næst heimaleik gegn Skagamönnum sem hafa sýnt góðar frammistöður á köflum í sumar. Áhugaverður slagur framundan þar og spurning hvort Grótta heldur áfram að raða inn mörkum líkt og í síðustu tveimur leikjum.

Ásmundur Arnarsson.Mynd/Vilhelm

Ási Arnars: Menn voru ekki líkir sjálfum sér

Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis var ósáttur með frammistöðu sina manna í dag sem voru yfirkeyrðir af Gróttuliðinu.

„Það er lítið hægt að segja. Við erum niðurlægðir hér í dag á okkar heimavelli af spræku Gróttuliði. Þeir spiluðu virklega vel í dag og virtust vilja þessi stig meira en við. Það jókst sá munur eftir því sem leið á leikinn. Síðustu tíu mínúturnar eigum við smá pressu þar sem við erum líklegir en það var of lítið og of seint,“ sagði Ásmundur í samtali við Vísi eftir leik

„Mér fannst við byrja þennan leik þokkalega en síðan fjaraði undan því. Þeir fá gott mark og við náðum aldrei að koma til baka.“

Fjölnisliðið var einfaldlega slakt í kvöld, áttu margar misheppnaðar sendingar og gerðu mistök sem eiga ekki að sjást í efstu deild.

„Menn voru ekki líkir sjálfum sér, hverju sem um er að kenna. Það er ekkert annað að gera í þessari stöðu en að rífa sig upp, það er nóg af leikjum framundan og við þurfum að sýna betri frammistöðu en þetta.“

Annað mark Gróttu kom strax í kjölfarið á tvöfaldri skiptingu Fjölnismanna þar sem leikmenn liðsins virtust alveg sofandi.

„Þarna ætluðum við að svara og koma til baka, 1-0 undir. Aukaspyrna lengst úti á velli og það vantar dekkingu í teignum. Það var virkilega ódýrt og vont að fá það mark á sig. Við náðum ekki að koma neitt til baka eftir það.“

Framundan hjá Fjölni er leikur gegn KA á Akureyri og ljóst að þeir þurfa að bæta sig töluvert ætli þeir sér eitthvað úr þeim leik.

„Við þurfum bara að þétta raðirnar og sýna úr hverju við erum gerðir. Sýna að frammistaðan sem við sýndum í dag er ekki eðlileg. Við þurfum að sýna að við getum betur, leggja meira í leikina og berja okkur saman til að ná í stig.“

Ágúst Gylfason.vísir/vilhelm

Gústi Gylfa: Stíflan er brostin

„Við stigum stórt skref í síðasta leik, fullt af mörkum og eitt stig til okkar. Við fylgdum því eftir með frábærum sigri hér á Fjölnisvelli og ég er gríðarlega stoltur af liðinu,“ sagði Ágúst Gylfason þjálfari Gróttu eftir fyrsta sigur Seltirninga í efstu deild frá upphafi.

„Við lögðum þetta 100% upp, leikmennirnir stóðu sig frábærlega vel og stuðningurinn var geggjaður. Þetta var okkar dagur.“

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn þó svo að Grótta væri hættulegri aðilinn. Í síðari hálfleik keyrðu gestirnir hinsvegar yfir Fjölnismenn.

„Leikplanið var gott og virkaði. Sóknarleikurinn var góður, varnarleikurinn góður. Það var frábært að halda hreinu því við höfum fengið mikið af mörkum á okkur, 12 mörk hingað til. Gott að halda hreinu. Það var mikilvægt í lokin að klára það og við gerðum það vel.“

Grótta skoraði ekki í fyrstu þremur leikjum sínum í Pepsi Max-deildinni en hafa hinsvegar skorað sjö mörk í síðustu tveimur, fjögur gegn HK og nú þrjú gegn Gróttu.

„Stíflan er brostin. Við erum búnir að finna mark andstæðinganna. Ætli það sé ekki bara málið,“ sagði Ágúst og glotti þegar hann var spurður hvort svartar spár ýmissa sérfræðinga um markaleysi hefðu kveikt í liðinu.

„Eigum við ekki búnir að svara því vel?,“ sagði Ágúst.

Með sigrinum fer Grótta úr fallsæti en Ágúst var ekkert kominn of langt í huganum.

„Þrátt fyrir að við fögnum þessum sigri þá erum við ekki orðnir neinir heimsmeistarar, það er ljóst. Við þurfum að halda áfram og á þessari braut þá getum við náð okkar markmiðum.“

Pétur Theódór Árnason skoraði sitt annað mark á tímabilinu þegar hann gulltryggði sigur Gróttu með þriðja marki liðsins í kvöld. Hann var vitaskuld afar sáttur í lok leiks.

„Stemmningin inni í klefa var geðveik. Þetta var langþráður sigur og geggjuð frammistaða hjá öllu liðinu. Við skorum þrjú mörk, höldum hreinu í fyrsta skipti og þetta gefur okkur ótrúlega mikið.“

Eftir markaleysi í síðustu þremur leikjum hefur Grótta nú skorað sjö mörk á 180 mínútum. Hvað hefur breyst?

„Í rauninni ekkert breytt, það var gott að ná þessu fyrsta marki í síðasta leik og við getum sagt að það hafi brotið stífluna. Við erum komnir með meira sjálfstraust, spilum okkar leik og mörkin koma.“

Margir spá því að þessi tvö lið verði í baráttu í neðri hluta deildarinnar í sumar. Hversu mikilvægt var að ná í sigur í einum af þessum sex stiga leikjum?

„Mjög mikilvægt, Fjölnir er með gott lið og það er virkilega erfitt að koma á þennan útivöll. Þetta eru allt mikilvægir leikir og það er geggjað að ná í þrjú stig hér.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira