Íslenski boltinn

Einn reynslumesti dómari Íslands hefur áhyggjur af dómgæslunni í dag

Ísak Hallmundarson skrifar

„Ég hef svolitlar áhyggjur af dómgæslunni og hef haft í svolítinn tíma. Ég er ekkert endilega upptekinn af þessum stóru atriðum, þau koma og eru kannski mest áberandi í þessu en ég hef meiri áhyggjur af gæðunum heilt yfir í dómgæslunni hjá okkur í dag. Í rauninni finnst mér menn á köflum bara ekki kunna þetta nógu vel, bæði leikfræðilega, hvað er leikbrot, og kannski ekki síður hvernig á að bera sig að,“ segir Jóhannes Valgeirsson, fyrrum dómari og einn sá reyndasti í þeim bransa, en hann var í viðtali við Sportpakkann í dag.

Mikil umræða hefur verið um dómgæslu nú í upphafi Íslandsmótsins.

„Þetta er búið að vera að þróast í þessa átt í dálítið langan tíma. Núverandi dómaranefnd er að erfa þetta frá fyrrverandi dómaranefndum, það er bara þannig. Ég held það hafi verið ákveðið niðurbrot í dómaramálum á Íslandi fyrir nokkru síðan, byrjaði fyrir löngu síðan. Ég öfunda ekkert endilega þennan hóp, þetta er erfiður hópur, það eru margir kóngar og hafa alltaf verið

Ég veit ekki af hverju dómarar eru ekki að standa sig nógu vel í dag, ég hefði viljað sjá meiri gæði og menn gera þetta með meiri reisn. Mér finnst alveg með ólíkindum að menn viti ekki komnir inn í mót hvað mega vera margar skiptingar í neðri deildum. Að menn viti ekki ákveðna grunnhluti í knattspyrnufræðum eins og hvað er leikbrot. Það er ekki ásættanlegt,“ segir Jóhannes en hann telur að það þurfi að setjast niður og vinna mjög alvarlega í hlutum hvað varðar dómgæslu á Íslandi.

Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×