Enski boltinn

Meistaradeildarbaráttan: Hverjir eiga erfiðustu leikina eftir?

Ísak Hallmundarson skrifar
Frank Lampard og lærisveinar eru í fjórða sæti þessa stundina.
Frank Lampard og lærisveinar eru í fjórða sæti þessa stundina. getty/Michael Regan

Baráttan í ensku úrvalsdeildinni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð gæti ekki verið meira spennandi. Einungis þrjú stig skilja að Leicester sem eru í þriðja sæti og Wolves sem eru í því sjötta.

Þar á milli eru Chelsea og Manchester United. Leicester er með 55 stig, Chelsea 54 stig og Man Utd og Wolves 52 stig. 

Sum liðin eiga þó eftir að spila erfiðari leiki heldur en önnur. 

Leicester:

Meðalstigafjöldi andstæðinga í leik: 1.42

Eiga eftir að spila Arsenal og Tottenham úti og Manchester United heim. Ekki auðvelt leikjaprógram það. Þá eiga þeir einnig eftir að spila við Sheffield United á heimavelli.

Chelsea:

Meðalstigafjöldi andstæðinga í leik: 1.45

Það segir þó ekki alla söguna þar sem einn af andstæðingum Chelsea er Liverpool á Anfield. Chelsea geta huggað sig við það að Liverpool mun ekki hafa að neinu að keppa nema mögulega stigametinu. Annars á Chelsea frekar þægilega leiki eftir, þeir eiga Watford og Norwich heima sem ættu að vera gefins sex stig, en eiga reyndar eftir að mæta Wolves og Sheffield United. Þeir mæta einmitt Úlfunum á Stamford Bridge í lokaumferðinni, gæti verið úrslitaleikur.

Manchester United: 

Meðalstigafjöldi andstæðinga í leik: 1.24

United á auðveldustu leikina eftir, það er bara þannig. Þetta eru allt leikir sem þeir eiga að vinna ef allt er eðlilegt. Í dag mæta þeir Bournemouth á heimavelli, næst mæta þeir svo Aston Villa og síðan eiga þeir leiki við West Ham, Southampton, Crystal Palace og loks Leicester í lokaumferðinni. Það er spurning hvort United verði hreinlega búið að tryggja sér Meistaradeildarsæti áður en þeir mæta Leicester.

Wolves:

Meðalstigafjöldi andstæðinga í leik: 1.36

Úlfarnir hafa verið magnaðir það sem af er árs og hafa ekki tapað í átta leikjum í röð. Þeir eiga næstauðveldustu dagskránna. Þeir taka á móti Arsenal í dag, mæta síðan Sheffield og þar næst Everton. Eftir það koma leikir gegn Crystal Palace og Burnley og lokaleikurinn er síðan á útivelli gegn Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×