Viðskipti innlent

Um 6.700 hafa nýtt sér ferða­gjöfina

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Akureyri.
Frá Akureyri. Vísir/Vilhelm

Alls hafa 6.698 manns nýtt sér ferðagjöf stjórnvalda sem varð aðgengileg landsmönnum fyrir um tíu dögum.

Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands, segir að í heildina hafi 43.497 manns nú sótt ferðagjöfina og 714 fyrirtæki skráð sig sem valkost fyrir landsmenn til að nýta gjöfina hjá.

Alls hafa um 46 þúsund manns sótt appið en ekki hafa þó allir þeirra sótt ferðagjöfina, sem skýri mismuninn.

Allir einstaklingar sem eru með lögheimili á Íslandi og fæddir 2002 eða fyrr fá ferðagjöfina að andvirði fimm þúsund krónur.

„Gjöfin er liður í því að styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og efla þannig íslenska ferðaþjónustu sem og hvetja landsmenn til að eiga góðar stundir á ferðalagi víðs vegar um landið,“ segir í tilkynningunni, en hægt er að nýta gjöfina til næstu áramóta.

Á vef Ferðamálastofu má sjá hvaða fyrirtæki sem taka á móti Ferðagjöfina, meðal annars hótel, gistiheimili, bílaleigur, afþreyingarfyrirtæki og veitingastaðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×