Íslenski boltinn

Fjórir útisigrar í Lengjudeildinni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Þórsarar gerðu góða ferð austur í dag.
Þórsarar gerðu góða ferð austur í dag. Heimasíða Þórs/Páll Jóhannesson

Fjórum leikjum lauk nú rétt í þessu í Lengjudeild karla í fótbolta þar sem gestaliðið vann í öllum tilfellum.

Á Grenivík var Fram í heimsókn og var mikið fjör í fyrri hálfleiknum þar sem Alexander Már Þorláksson kom Fram í forystu á 8.mínútu. Enski sóknarmaðurinn Kairo John var fljótur að jafna metin fyrir heimamenn en Aron Snær Ingason kom gestunum aftur í forystu á 20.mínútu. Reyndust 1-2 lokatölur leiksins eftir mikla orrahríð heimamanna á lokakaflanum.

Í Ólafsvík vann Keflavík stórsigur, 0-4, eftir að staðan í leikhléi hafði verið jöfn. Joey Gibbs kom Keflavík yfir með marki úr vítaspyrnu á 48.mínútu og Keflvíkingar gerðu þrjú mörk á síðustu 10 mínútum leiksins.

Í Fjarðabyggðahöllinni voru Þórsarar í heimsókn hjá Leikni F. Heimamenn komust yfir strax á fyrstu mínútu leiksins en varnarmaðurinn Bjarki Þór Viðarsson sá til þess að Þórsarar færu með forystu í leikhléið en hann skoraði á 8. og 11.mínútu.

Arek Grzelak jafnaði metin fyrir Leikni F. með marki úr vítaspyrnu á 63.mínútu en gestirnir voru fljótir að ná forystunni aftur þegar Jóhann Helgi Hannesson, nýkominn inná sem varamaður, var réttur maður á réttum stað í vítateig heimamanna. Lokatölur 2-3 fyrir Þór.

Í Mosfellsbænum lentu Eyjamenn í kröppum dansi gegn Aftureldingu en sterklega er búist við því að ÍBV muni vinna deildina með yfirburðum í ár. Víðir Þorvarðarson kom ÍBV yfir í fyrri hálfleik og leiddu þeir leikinn allt þar til á 76.mínútu þegar Hafliði Sigurðarson jafnaði metin fyrir heimamenn.

Telmo Castanheira tryggði gestunum sigurinn með marki skömmu síðar, eða á 79.mínútu og Eyjamenn því með fullt hús stiga eftir tvo leiki, líkt og Þórsarar, Keflvíkingar og Framarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×