Umfjöllun og viðtöl: Þróttur R. - Valur 1-2 | Ný­liðarnir gáfu meisturunum leik

Gabríel Sighvatsson skrifar
Elín Metta Jensen var á skotskónum í kvöld.
Elín Metta Jensen var á skotskónum í kvöld. vísir/hag

Um það bil 400 áhorfendur fylgdust með er Íslandsmeistararnir mættu á Eimskipsvöllinn í fyrsta heimaleik Þróttar R. í efstu deild í rúm 5 ár.

Leikurinn var fínasta skemmtun. Það var ekki að sjá að þarna væru á ferð ósigraðir Íslandsmeistarar frá því í fyrra og nýliðar.

Fyrri hálfleikurinn var kaflaskiptur og skiptust liðin á að sækja. Bæði lið voru óheppin að skora ekki en gestirnir skutu þrívegis í tréverkið með stuttu millibili í byrjun leiks á meðan Þróttarar komu boltanum tvisvar yfir marklínuna án þess að mörkin töldu.

Elín Metta Jensen braut ísinn í síðari hálfleik með snyrtilegri vippu eftir misskilning og sein viðbrögð í vörn Þróttar. Landsliðskonan var á tánum og með allt á hreinu þegar hún skoraði sitt 3. mark á tímabilinu í tveimur leikjum.

Varamaðurinn Diljá Ýr Zomers tvöfaldaði forystu Vals skömmu síðar með föstum skalla eftir hornspyrnu sem Fanndís Friðriksdóttir tók.

Þegar Valskonur virtust vera að sigla sigri í höfn gerðist Arna Eiríksdóttir sek um slæm mistök. Miðvörðurinn – sem kom einnig inn á sem varamaður – átti þá slaka sendingu til baka á Söndru Sigurðardóttir í markinu. Sendingin var alltof laus sem gaf Lindu Líf Boama tækifæri á að komast inn í sendinguna. Þegar Sandra hikaði í úthlaupi sínu var úti um kapphlaupið og Linda Líf lagði boltann framhjá Söndru og Þróttarar skyndilega í möguleika á að ná í stig í leiknum.

Valskonur skiptu þá um gír og héldu boltanum innan liðsins það sem eftir lifði leiks. Þróttarar fengu ekki annað tækifæri og Valskonur fara heim með 3 stig úr Laugardalnum.

Af hverju vann Valur?

Fyrirfram var búist við sigri Vals, sem kom á daginn, en það bjuggust fæstir við svona mikilli mótspyrnu frá nýliðunum.

Á endanum var það þolinmæði, reynsla og kannski örlítil heppni sem gerði gæfumuninn. Það tók langan tíma að brjóa vörn Þróttar á bak aftur en Valur var nokkrum sinnum búið að vera nálægt því að skora. Ekkert af þessu var þannig séð nýtt fyrir þeim og eftir að þær brutu loks ísinn sá maður ekki fram á að þær myndu glutra forystunni niður.

Hvað gekk illa?

Að skora. Bæði lið fengu dauðafæri á að setja mark í fyrri hálfleik. Tréverkið, skortur á marklínutækni og línuvörðurinn komu í veg fyrir að löglegt mark var skorað og því var markalaus í leikhléi.

Að öðru leyti getur hvorugt liðið kvartað yfir frammistöðu sinni í dag en leikplan beggja liða virtist ganga ágætlega upp og þetta hefði getað dottið hvoru megin sem var í dag.

Hverjar stóðu upp úr?

Elín Metta Jensen var skeinuhætt og illviðráðanleg eins og oft áður. Hún sýndi markanefið í dag þegar hún nýtti sér andartaks einbeitingarleysi hjá heimakonum og kom sínu liði yfir í leiknum. Valsararnir gerðu það sem þeir þurftu að gera en Diljá Ýr Zomers átti góða innkomu, skoraði mark og ætti með réttu að vera með stoðsendingu þar sem Elín Metta klikkaði á stórgóðu færi seint í leiknum.

Þróttur barðist hetjulega og geta verið ósáttar að hafa ekkert fengið úr þessum leik. Margrét Sveinsdóttir olli miklu usla í vörn Vals og hefði getað komist á töfluna ef mark hennar hefði verið dæmt. Þá kom Álfhildur Rósa Kjartansdóttir boltanum í netið en hún var rangstæð. Enginn leikmaður átti sérstaklega slæman dag.

Hvað gerist næst?

Valur er á toppnum með 6 stig og næsti leikur þeirra er gegn Þór/KA en seinna liðið á eftir að spila sinn leik í þessari umferð. Þróttur er enn með 0 stig. Liðið sækir Fylki heim en Fylkisstúlkur hafa byrjað þetta tímabil feykivel og verður áhugavert að fylgjast með þeirri viðureign.

Simma: Eigum heima í þessari deild

Sigmundína Sara Þorgrímsdóttir, eða Simma, stóð sig vel á miðjunni hjá Þrótti rétt eins og flestir liðsfélagar hennar.

„Þetta var baráttuleikur. Við vorum að taka á móti ríkjandi Íslandsmeisturum á heimavelli. Það kom ekki á óvart að þær myndu sækja á okkur en við vorum þéttar fyrir og stóðum okkur bara helvíti vel.“

Simma var nokkuð ángð með frammistöðuna en súr að hafa ekki fengið neitt út úr leiknum.

„Þær bjuggust örugglega ekki við okkur svona. Við vorum sterkar fyrir og höfum verið að æfa vel. Þetta er hörkuprógram í sumar. Við stóðum í þeim núna og erum svolítið fúlar, við hefðum viljað stig í þessum leik.“

Vallargestir héldu að Þróttarar hefðu tekið forystuna þegar skot frá Margréti Sveinsdóttur rúllaði yfir línuna en dómarinn sagði að boltinn hefði ekki farið inn.

„Ég sá það ekki, aftasti maður, en þær vilja meina það. Við þurfum að skoða þetta aftur á teipinu. Það var gott fyrir Lindu (Líf Boama) að setja hann þegar hún kom inn á og við sýndum það að við eigum heima í þessari deild.“

„Það er stígandi í liðinu og við erum spenntar að spila næsta leik.“

Elín Metta Jensen.vísir/eyjólfur

Elín Metta: Krefjandi aðstæður

„Virkilega sætur sigur eftir þennan baráttuleik. Við sýndum mikinn karakter í seinni hálfleik að halda þolinmæði eftir frekar slaka byrjun.“ sagði Elín Metta Jensen, markaskorari í dag, eftir sigurinn.

„Eftir að markið kom fannst mér við ná að halda boltanum mjög vel og þær voru í „ströggli“ og við náum að halda út. Þetta var flott,“

Þróttarar eru nýliðar í deildinni en stóðu heldur betur í Valskonum í dag, eitthvað sem ekki allir bjuggust við.

„Við vissum að þær hefðu styrkt sig fyrir tímabilið. Þær voru með mjög góða útlendinga og fleiri góða í liðinu. Þær eru með frábæran stuðningsmannaher á bak við þær, þetta voru krefjandi aðstæður.“

„Mér fannst hann (fyrri hálfleikur) allt í lagi, bæði lið hefðu getað skorað. Svo bara unnum við í seinni hálfleik.“

Elín Metta kom Val á bragðið með marki eftir rúmlega klukkutíma leik og er því komin með 3 mörk í deildinni.

„Ég var bara á tánum og tilbúin í færinu, það var gott að ná þessu marki inn.“

Pétur Péturs: Þarft að vera þolinmóður

„Þróttarar stóðu sig frábærlega í dag. Þetta var erfiður leikur en þegar upp var staðið var þetta samt öruggt.“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, sáttur eftir leik.

Lið Þróttar spilaði vel í leiknum og áttu fullt erindi í Íslandsmeistarana í dag.

„Þær eru að spila sinn fyrsta leik á heimavelli og eru búnar að spila saman í 5 ár þetta kerfi sem þær spila og gerðu það mjög vel í dag.“

Mörk Vals komu í seinni hálfleik með stuttu millibili og þrátt fyrir að Þróttur næði að minnka muninn var sigurinn aldrei í hættu að mati Péturs.

„Þetta var bara erfiður leikur og þessi deild er bara erfið. Það var gott að brjóta ísinn og þá slakaði á öllu og mér fannst við keyra þetta vel heim.“

„Það er oft í svona leikjum sem þú þarft að vera þolinmóður og við vorum það og sigldum þessu vel heim í restina.“ sagði Pétur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira