Sport

Sextán ára rísandi íþróttastjarna hrapaði til bana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luce Douady ætlaði sér stóra hluti á ÓL í Tókýó.
Luce Douady ætlaði sér stóra hluti á ÓL í Tókýó. Getty/Marco Kost

Franska klifursambandið syrgir nú eina efnilegustu klifurkonu heims sem náði ekki að halda upp á sautján ára afmælið sitt.

Luce Douady lést á sunnudaginn eftir að hún féll fram að bjargbrún, hrapaði 150 metra og lést samstundis.

Luce Douady var á gangi eftir slóða á milli klifursvæða í frönsku Ölpunum þegar hún missti fótanna og féll fram af klettinum. Klifursvæðið var í suðaustur Frakklandi og ekki langt frá heimili hennar.

Luce Douady var með klifurhóp sem var að ferðast saman eftir erfiðri gönguleið þar sem þau þurftu að nota band til að styðjast við. Eitthvað fót úrskeiðis með þessum hryllilegum afleiðingum.

„Þessar hræðilegu fréttir hafa haft mikil áhrif á klifurfélaga hennar, þjálfara hennar og allt félagið hennar Chambéry Escalade en í dag syrgir allt sambandið,“ sagði í yfirlýsingu frá franska fjallaklifursambandinu, FFME.

„Luce var ung íþróttakona í franska klifurlandsliðinu sem var mjög efnileg. Hún var frábær í keppni. Hún elskaði alls kyns klifur. Það er mikil sorg í öllu klifursamfélaginu,“ sagði meðal annars í þessari tilkynningu frá franska klifursamfélaginu.

Alþjóðlega klifursambandið minntist Douady einnig og lýsti henni sem ungri, frábærri og hæfileikaríki íþróttakonu. „Hugur okkar og bænir eru hjá fjölskyldu og vinum Luce á þessum sorgartímum.“

Luce Douady fæddist 17. nóvember 2003 og átti því enn fimm mánuði í sautján ára afmælið sitt. Hún er ríkjandi heimsmeistari unglinga í klifri og var búin að setja stefnuna á það að keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó. Klifuríþróttin á að stíga sín fyrstu skref á Ólympíuleikunum sem áttu að fara fram í ár en var frestað til 2021 vegna kórónuveirufaraldsins.

Félagið hennar Chambéry Escalade minntist hennar einnig og lýsti henni sem fallegri persónu. „Luce Douady yfirgaf okkur í gær. Hún fór eins og hún lifði, að lifa lífinu til fulls,“ sagði í tilkynningunni á heimasíðu klifurfélagsins hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×