Erlent

Minntust þeirra sem hafa látist í faraldrinum

Andri Eysteinsson skrifar
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AP/Francisco Seco

Sænska fánanum var flaggað í hálfa stöng fyrir framan Riksdag, sænska þingið, í dag þegar haldin var minningarathöfn um þau sem hafa látist í landinu af völdum Covid-19 sýkingarinnar sem kórónuveiran veldur. AP greinir frá.

Nú hafa yfir 5.000 Svíar látist í faraldrinum.

Minningarathöfnin var fimmtán mínútur að lengd og vottuðu þingmennirnir 349 hinum látnu virðingu sína með mínútu langri þögn. Aðferðir þær sem sænska ríkisstjórnin hefur beitt vegna faraldursins hafa verið gagnrýndar en stjórnvöld standa þétt við þær.

„Þetta er fyrir þau sem hafa misst vinnuna, heilsu eða látið lífið,“ sagði Andreas Norlen forseti Riksdag. „Við segjum nú við alla þá sem sakna og syrgja, þið eruð ekki ein.“

Tilkynnt hefur verið um 5.041 andlát í Svíþjóð af völdum veirunnar og eru áhrif hennar lang mest í Svíþjóð af öllum Norðurlöndunum, fjöldi andláta á degi hverjum hefur þó minnkað á síðustu vikum og hefur nú næstum náð eðlilegum fjölda eftir að hafa náð hámarki í apríl.

Fjölmörg ríki Evrópu hafa sett takmarkanir á komur ferðafólks frá Svíþjóð, þar á meðal Norðurlöndin. Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, sagði það nokkuð furðulegt að vinaþjóðir Svía hefðu ekki opnað fyrir ferðalög þeirra til landanna.

Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Ann Linde, sagði í dag að í lok mánaðar verði reglum um ferðalög utan landsteinanna til 10 Evrópuríkja breytt. Löndin eru Grikkland, Króatía, Spánn, Ítalía, Portúgal, Slóvenía, Frakkland, Ísland, Belgía, Sviss og Lúxemborg.

Enn verða takmarkanir sett á ferðalög til Noregs og Svíþjóðar auk ríkja utan Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×