Fótbolti

Unga hetjan hjá Stjörnunni í gærkvöldi tók metið af þjálfara sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson og Ísak Andri Sigurgeirsson eru tveir þeir yngstu til að skora fyrir Sjtörnuna í efstu deild.
Rúnar Páll Sigmundsson og Ísak Andri Sigurgeirsson eru tveir þeir yngstu til að skora fyrir Sjtörnuna í efstu deild. Vísir/Samsett

Hetja Stjörnunnar í gærkvöldi tryggði Garðarbæjarliðinu ekki bara þrjú mikilvæg stig heldur henti hann þjálfara sínum út úr metabók Stjörnunnar.

Ísak Andri Sigurgeirsson tryggði Stjörnunni 2-1 sigur á Fylki með marki í uppbótatíma.

Ísak Andri Sigurgeirsson var aðeins 16 ára, 9 mánaða og 4 daga í gær og er fyrsti Stjörnumaðurinn til að skora í efstu deild áður en hann fagnar sautján ára afmælisdegi sínum.

Ísak Andri bætti þar met þjálfarans Rúnars Páls Sigmundssonar frá 1991.

Rúnar Páll Sigmundsson var 17 ára, 1 mánaða og 19 daga þegar hann skoraði fyrir Stjörnuna á móti Víkinga 24. júní 1991.

Rúnar Páll kom þá Stjörnunni í 3-2 á 71. mínútu en það var þó ekki sigurmarkið því verðandi Íslandsmeistarar Víkinga skoruðu tvö mörk á lokakaflanum og tryggðu sér 4-3 sigur.

Sölvi Snær Guðbjargarson var aðeins viku frá því að slá met Rúnars Páls fyrir tveimur árum en nú féll metið.

Yngstu Stjörnumenn til að skora í úrvalsdeild karla:

  • 16 ára, 9 mánaða og 4 daga Ísak Andri Sigurgeirsson á móti Fylki 2020
  • 17 ára, 1 mánaða og 19 daga Rúnar Páll Sigmundsson á móti Víkingi 1991
  • 17 ára, 1 mánaða og 25 daga Sölvi Snær Guðbjargarson á móti KA 2018
  • 17 ára, 3 mánaða og 18 daga Ásgeir G. Ásgeirsson á móti Skallagrími 1997
  • 17 ára, 7 mánaða og 2 daga Kristinn Ingi Lárusson á móti Val 1991
  • 18 ára og 20 daga Ólafur Karl Finsen á móti KR 2010



Fleiri fréttir

Sjá meira


×