Erlent

Bók þjóðar­öryggis­ráð­gjafa Trump væntan­leg í júní

Kjartan Kjartansson skrifar
Bolton hætti sem þjóðaröryggisráðgjafi í fússi í fyrra. Bók hans er ekki talin sýna Trump forseta í fögru ljósi.
Bolton hætti sem þjóðaröryggisráðgjafi í fússi í fyrra. Bók hans er ekki talin sýna Trump forseta í fögru ljósi. Vísir/Getty

Lögmaður Johns Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segir að bók um tíma hans í Hvíta húsinu komi út 23. júní þrátt fyrir tilraunir lögmanna þess til að koma í veg fyrir útgáfuna. Bolton lét vita af því að hann gæti haft nýjar upplýsingar um atvik sem leiddu til þess að Trump var kærður fyrir embættisbrot í vetur en bar ekki vitni í réttarhöldunum.

Bolton hætti eða var rekinn, allt eftir því hvort honum eða Trump er trúað, í september eftir að þeim forsetanum hafði greint verulega á um stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Norður-Kóreu, Íran, Afganistan og Rússlandi.

Lögfræðingar hafa haft bók sem Bolton skrifaði um reynslu sína sem þjóðaröryggisráðgjafi til umsagnar undanfarið. Charles Cooper, lögmaður Bolton, segir að verulegar breytingar hafi verið gerðar til að tryggja að leynilegar upplýsingar verði ekki birtar, að sögn Reuters.

Hvíta húsið hafi nýlega skrifað honum bréf um að leynilega upplýsingar séu í bókinni og að útgáfa hennar myndi brjóta gegn samningi sem Bolton gerði um þagmælsku. Cooper segir þetta tilraun Hvíta hússins til þess að notfæra sér þjóðaröryggi til þess að ritskoða Bolton. Bókin verði birt eftir sem áður síðar í þessum mánuði.

Bolton var gagnrýndur fyrir að greina ekki frá því sem hann vissi um tilraunir Trump til að þrýsta á Úkraínu um að rannsaka pólitískan keppinaut hans í vetur. Hann lét þingið vita af því að hann kynni að hafa upplýsingar sem hefðu þýðingu fyrir réttarhöld yfir Trump en bar hvorki vitni né greindi opinberlega frá því sem hann vissi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×