Erlent

Nýsjálendingar telja sig hafa útrýmt kórónuveirunni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Próf við kórónuveirunni framkvæmt í bráðabirgðaprófunarstöð í Christchurch, Nýja Sjálandi. Myndin er síðan í apríl.
Próf við kórónuveirunni framkvæmt í bráðabirgðaprófunarstöð í Christchurch, Nýja Sjálandi. Myndin er síðan í apríl. Mark Baker/AP

Svo virðist sem heilbrigðisyfirvöldum á Nýja-Sjálandi hafi svo gott sem tekist að vinna bug á kórónuveirufaraldrinum í landinu, en engin virk smit eru í landinu, svo vitað sé. Stjórnvöld hvetja fólk til að vera áfram á varðbergi, og búa sig undir aðra bylgju.

Sautján dagar eru síðan síðasta manneskjan greindist með kórónuveiruna. Á þeim tíma hafa um 40 þúsund manns verið prófaðir fyrir veirunni í landinu, en alls hafa um 300 þúsund verið prófaðir. Tæplega fimm milljónir búa á Nýja-Sjálandi.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sagði á blaðamannafundi að yfirvöld væru þess fullviss að búið væri að hefta útbreiðslu veirunnar algerlega. Íbúar þyrftu þó að vera undirbúnir fyrir aðra bylgju faraldursins.

Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að aflétta öllum samfélagslegum takmörkunum sem komið var á vegna veirunnar, fyrir utan þær takmarkanir sem komið hafði verið á við landamæri landsins. Þannig þurfa allir sem ferðast til landsins að sæta sóttkví við komuna, líkt og hér á Íslandi.

Sérfræðingar telja að samverkandi þættir hafi gert það að verkum að Nýja-Sjálandi tókst að „þurrka út veiruna.“ Landfræðileg staðsetning og einangrun í suðurhluta Kyrrahafs hafi gefið yfirvöldum tóm til þess að fylgjast með útbreiðslu veirunnar í öðrum löndum. Stjórnvöld voru þá fljót að bregðast við með takmörkunum til að hefta dreifingu hennar.

Rúmlega 1.500 manns greindust með veiruna á Nýja-Sjálandi. Þar af létust 22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×