Íslenski boltinn

Segir að Jordan KA-liðsins gæti lent í vandræðum án Pippen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jordan og Pippen KA-liðsins, þeir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Elfar Árni Aðalsteinsson.
Jordan og Pippen KA-liðsins, þeir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Elfar Árni Aðalsteinsson. vísir/bára

Sigurvin Ólafsson, einn sérfræðinga Stöðvar 2 Sports um Pepsi Max-deild karla, kom með skemmtilega samlíkingu í þriðja upphitunarþætti fyrir Pepsi Max-deildina í gær.

Hann sagði þá að Hallgrímur Mar Steingrímsson væri Michael Jordan KA-liðsins á meðan Elfar Árni Aðalsteinsson væri Scottie Pippen. Elfar Árni sleit krossband í vetur og verður ekkert með KA í sumar. Jordan verður því að spjara sig án Pippens fyrir norðan.

„Af því sem ég sá síðasta sumar er hann algjör yfirburðamaður í þessu liði. Mér fannst hann bestur og allt snúast um hann,“ sagði Sigurvin um Hallgrím.

„En svo ég haldi mig við þetta körfuboltagrín; ef hann er Jordan þá er Pippen farinn. Þeir voru eiginlega bara tveir að spila í fyrra. Pippen spilar ekki í sumar og Jordan er í basli.“

Guðmundur Benediktsson tók samlíkingu Sigurvins lengra og spurði hvort Almarr Ormarsson, fyrirliði KA, gæti ekki verið Dennis Rodman, þriðja hjólið undir Chicago Bulls-vagninum á árunum 1995-98.

Hallgrímur skoraði tíu mörk fyrir KA á síðasta tímabili og Elfar Árni þrettán. Húsvíkingarnir skoruðu því samtals 23 af 34 mörkum KA-liðsins í Pepsi Max-deildinni í fyrra.

Klippa: Pepsi Max-upphitun - Umræða um lykilmenn KA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×