Íslenski boltinn

Heimir segir leikmannahóp Vals tilbúinn fyrir sumarið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimir Guðjónsson mun stýra Valsmönnum í sumar.
Heimir Guðjónsson mun stýra Valsmönnum í sumar. Skjámynd/S2 Sport

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals í Pepsi Max deild karla, segir að leikmannahópur liðsins sé klár fyrir Íslandsmótið sem hefst þann 13. júní næstkomandi. Þetta staðfesti Heimri í viðtali við Fótbolti.net eftir æfingaleik liðsins við Breiðablik á Kópavogsvelli í gær. 

„Maður er alltaf að spá í þetta, þetta voru þeir ellefu leikmenn sem byrjuðu í dag og svo eigum við eftir að spila einn leik við Fylki á föstudaginn áður en að mótið byrjar. Við erum líka að leyfa mönnum að spila og passa upp á meiðsli,“ sagði Heimir eftir leik aðspurður hvort byrjunarlið Vals í 3-3 jafnteflinu gegn Breiðablik væri líklegt byrjunarlið er mótið hæfist.

Valur hefur verið í leit að öðrum sóknarmanni en Patrick Pedersen er í raun eini framherji liðsins þó aðrir leikmenn geti leyst þá stöðu. Til að mynda spilaði Aron Bjarnason frammi er Patrick fór út af í æfingaleik gegn Keflavík á dögunum.

„Við munum ekki lána neina leikmenn eins og staðan er í dag. Auðvitað er ekkert launungamál að við höfum svo sem verið að reyna en það hefur bara ekki gengið og eins og staðan er í dag eru allar líkur að þetta sé liðið sem byrji Íslandsmótið fyrir Val,“ sagði Heimir að lokum varðandi þann möguleika að Valsmenn myndu lána frá sér leikmenn áður en mótið hæfist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×