Erlent

Fleiri en 400 þúsund smitaðir í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Samkvæmt opinberum tölum hafa 4.693 dáið í Rússlandi, sem er mun minna en í ríkjum þar sem sambærilegur fjöldi smita hefur greinst.
Samkvæmt opinberum tölum hafa 4.693 dáið í Rússlandi, sem er mun minna en í ríkjum þar sem sambærilegur fjöldi smita hefur greinst. EPA/SERGEI ILNITSKY

Minnst 400 þúsund manns hafa nú smitast af Covid-19 í Rússlandi. 9.268 ný smit greindust á milli daga og hafa minnst 405.843 greinst með sjúkdóminn, sem nýja kórónuveiran veldur. Þá segja opinberar tölur að minnst 138 hafi dáið á milli daga.

Smituðum hefur fjölgað hratt í Rússlandi en þeir voru 300 þúsund þann 20. maí. Í aðdraganda þess hafði tilfellum fjölgað um sirka tíu þúsund á dag. Undanfarna daga hefur fjölgunin verið um níu þúsund á dag.

Samkvæmt opinberum tölum hafa 4.693 dáið í Rússlandi, sem er mun minna en í ríkjum þar sem sambærilegur fjöldi smita hefur greinst.

Til dæmis hafa 498.440 smit greinst í Brasilíu. Þar hafa minnst 28.834 dáið, samkvæmt opinberum tölum, og sérfræðingar telja raunverulegan fjölda látinna mun hærri. Í Bretlandi hafa minnst 274.219 smitast og minnst 38.458 dáið, samkvæmt gögnum frá Johns Hopkins háskólanum, sem byggja á opinberum tölum.

Yfirvöld Rússlands hafa verið sökuð um að gefa ekki upp raunverulegan fjölda dauðsfalla vegna faraldursins en hafa brugðist reið við þeim ásökunum.

Rússar segja lágt hlutfall dauðsfalla vera vegna umfangsmikillar skimunar þar í landi og að margir sem hafi einungis sýnt væg einkenni séu meðal þeirra sem hafi greinst með veiruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×