Erlent

Loka skólum á nýjan leik í Suður-Kóreu

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Heilbrigðisstarfsmenn skima fyrir Covid-19 í Seoul.
Heilbrigðisstarfsmenn skima fyrir Covid-19 í Seoul. AP/Ahn Young-joon

Rúmlega 200 skólum í Suður Kóreu hefur nú verið lokað að nýju þar sem kórónuveiran er farin að gera vart við sig í meira mæli, en áður hafði góður árangur náðst í baráttunni við sjúkdóminn í landinu. Aðeins eru nokkrir dagar síðan skólarnir voru teknir í gagnið aftur en skólabörn höfðu stundað heimanám þar um margra vikna skeið.

Flestir skólarnir eru í stórborginni Seoul en þar er ástandið verst.

Tæplega áttatíu tilfelli greindust í landinu síðasta sólarhringinn og hafa ekki fleiri greinst á einum degi í tvo mánuði.

Yonhap fréttaveitan segir yfirvöld eiga í vandræðum með að hefta útbreiðslu nýju smitanna. Mörg þeirra megi rekja til sama vinnustaðarins þar sem fólk vinnur í miklu návígi.

Þá virðist faraldurinn vera að taka við sér að nýju í suðvesturhluta Japans, aðeins örfáum dögum eftir að stjórnvöld afléttu neyðarástandi í landinu.

Í Brasilíu er ástandið afar slæmt, þar greindust tæplega 27 þúsund manns smitaðir á einum sólarhring í gær, sem er nýtt met. Alls hafa 5,6 milljónir tilfella verið staðfest á heimsvísu og rétt tæplega 360 þúsund manns hafa látið lífið í faraldrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×