Íslenski boltinn

Hjörvar hefur litla trú á nýjum þjálfurum Fylkis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atli Sveinn Þórarinsson, nýr þjálfari Fylkis, ræðir við Guðjón Guðmundsson.
Atli Sveinn Þórarinsson, nýr þjálfari Fylkis, ræðir við Guðjón Guðmundsson. mynd/stöð 2

Hjörvar Hafliðason hefur efasemdir um að forráðamenn Fylkis hafi tekið rétta ákvörðun þegar þeir fengu Atla Svein Þórarinsson og Ólaf Stígsson til að stýra liðinu í stað Helga Sigurðssonar. Hvorugur þeirra hefur þjálfað í efstu deild áður.

Undir stjórn Helga vann Fylkir 1. deildina 2017 og hefur lent í 8. sæti Pepsi Max-deildar karla undanfarin tvö ár.

„Auðvitað eru þeir að taka séns. Þeir voru með þjálfara sem hafði ekkert fyrir því að festa þá í sessi í efstu deild. Saga Fylkis á öðrum áratug þessarar aldar er svolítið öðruvísi en í kringum aldamótin þar sem þeir börðust á toppnum. Á síðustu tíu árum hafa þeir best náð 5. eða 6. sæti,“ sagði Hjörvar í öðrum upphitunarþætti Stöðvar 2 Sports fyrir Pepsi Max-deild karla í gær.

„Þeir létu Helga fara. Af hverju? Ætla þeir að gera betur eða spila öðruvísi fótbolta. Það er meiningin. Atli Sveinn hefur alveg þjálfað áður. Hann var Dalvík, gerði ekkert þar og fór svo að þjálfa krakka í Garðabænum. Ég veit ekki hverju þetta á að breyta.“

Ólafur Ingi Skúlason er spilandi aðstoðarþjálfari hjá Fylki. Davíð Þór Viðarsson segir að vægi hans sé mikið og kannski meira en hjá flestum aðstoðarþjálfurum.

„Hann er hokinn af reynslu, hefur alltaf haft miklar skoðanir á fótbolta og veit mikið um leikinn. Hann er klárlega með þeim í þessu en ef hann er að fara að spila á fullu, sem ég reikna með, getur hann ekki einbeitt sér að þjálfuninni að fullu,“ sagði Davíð Þór.

Klippa: Pepsi Max-upphitun - Hjörvar um þjálfaraskiptin hjá Fylki

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×