Erlent

Fangelsaður fyrir að klípa í rass flugþjóns á leið til Íslands

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn var á leið til Íslands með Easy Jet.
Maðurinn var á leið til Íslands með Easy Jet. Getty/Michael Kappeler

Breskur togarasjómaður á sextugsaldri hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi í Bretlandi fyrir að hafa kynferðislega áreitt flugþjón í flugi Easy-Jet til Íslands í október á síðasta ári.

Breskir fjölmiðlar greina frá og segja að maðurinn hafi verið til vandræða í fluginu. Hann hafi falið karton af 400 sígarettum undir sæti sínu og brugðist ókvæða við þegar honum var tjáð að hann gæti ekki keypt meira áfengi um borð.

Einn af flugþjónunum um borð bað sjómanninn þá um að hafa sig hægan, það endaði með því að maðurinn greip þéttingsfast um aðra rasskinn flugþjónsins. Þegar flugþjónninn lét sjómanninn vita að hann myndi tilkynna atvikið til lögreglu.

„Þú ert ekki Breti ef þú heldur að þetta sé kynferðislegt ofbeldi,“ er maðurinn sagður hafa kallað á eftir flugþjóninum er hann var að ganga frá kvörtun vegna málsins. Var hann einnig sakaður um að hafa hreytt ókvæðisorðum að flugþjóninum og að hafa elt hann eftir gangi flugvélarinnar.

Sjómaðurinn var handtekinn við komuna til Íslands og sendur rakleiðis aftur til Bretlands þar sem lögregla tók á móti honum í Manchester. Fyrir dómi viðurkenndi hann að hafa áreitt flugþjóninn á kynferðislegan hátt. Hefur hann alls verið sakfelldur 30 sinnum fyrir 108 mismunandi brot á löngum sakaferli.

Var hann dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir hegðun sína um borð í flugvélinni auk þess sem að hann verður settur á skrá yfir kynferðisbrotamenn í sjö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×