Erlent

Minkar hafa smitað minnst tvo af veirunni í Hollandi

Atli Ísleifsson skrifar
Alls er að finna einhver 155 minkabú í Hollandi og hafa minkar greinst með kórónuveirusmit á fjórum slíkum.
Alls er að finna einhver 155 minkabú í Hollandi og hafa minkar greinst með kórónuveirusmit á fjórum slíkum. Getty

Að minnsta kosti tveir menn hafa smitast af kórónuveirunni eftir að hafa komist í nánd við smitaða minka í Hollandi. Eru þetta fyrstu tilfelli slíkrar smitleiðar svo vitað sé.

Talsmenn hollenskra heilbrigðisyfirvalda hafa staðfest að líkurnar að smitast eftir þessari leið utan minkabúa séu hverfandi. Tilkynnt var í gær um að „mjög líklegt“ væri að minkur hafi smitað mann af kórónuveirunni og væri það annað slíka tilfelli á einni viku.

Alls er að finna einhver 155 minkabú í Hollandi og hafa minkar greinst með kórónuveirusmit á fjórum slíkum búum, að því er fram kemur í minnisblaði landbúnaðarráðherrans Carola Schouten til hollenska þingsins. Er talið að í þremur af búunum fjórum hafi smitaður maður smitað dýrin, þó að enn sé verið að rekja smitið í einu tilvikanna.

Í frétt Deutsche Welle segir að til standi að loka öllum minkabúum í landinu fyrir árið 2023 í samræmi við lög sem samþykkt voru nokkru fyrir faraldurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×