Viðskipti erlent

Eigendur dísilbíla eiga rétt á bótum frá Volkswagen

Kjartan Kjartansson skrifar
Volkswagen kom fyrir ólöglegum hugbúnaði í dísilbílum sem dró tímabundið úr magni svifryks í útblæstri á meðan þeir voru í mengunarprófum. Fyrirtækið hefur þurft að greiða þúsundi milljarða í skaðabætur og sektir vegna svikanna.
Volkswagen kom fyrir ólöglegum hugbúnaði í dísilbílum sem dró tímabundið úr magni svifryks í útblæstri á meðan þeir voru í mengunarprófum. Fyrirtækið hefur þurft að greiða þúsundi milljarða í skaðabætur og sektir vegna svikanna. Vísir/EPA

Dómstóll í Þýskalandi komst að þeirri niðurstöðu að bílaframleiðandinn Volkswagen þyrfti að greiða eigendum dísilbíla sem fyrirtækið átti við til að blekkja yfirvöld bætur í dag. Tugir þúsunda dómsmála hafa verið höfðuð í Þýskalandi vegna útblásturshneykslisins.

Volkswagen varð uppvíst að því að eiga við vélar í dísilbílum til þess að fela fyrir yfirvöldum hversu mikið bílarnir menguðu. Hugbúnaður, sem komið var fyrir í bílunum, gerði það að verkum að útblástur þeirra var hreinni þegar þeir voru í útblástursprófum en þegar þeir voru komnir á götuna.

Þeir sem keyptu slíka bíla eiga rétt á að skila þeim og fá kaupverðið endurgreitt að hluta með dómi dómstóls í Karlsruhe í dag. Reuters-fréttastofan segir að dómurinn sé mikið áfall fyrir þýska bílaframleiðandann þar sem hann setur fordæmi fyrir um 60.000 dómsmál sem bíða úrlausnar á neðri stigum þýska réttarkerfisins.

Útblásturshneykslið hefur þegar kostað Volkswagen meira en þrjátíu milljarða evra, jafnvirði tæplega 4.700 milljarða íslenskra króna, í skaðabótagreiðslur og stjórnvaldssektir til þessa.

Bandarísk yfirvöld tóku Volkswagen-bílana úr umferð sem leiddi til skaðabótakrafna. Bílarnir voru ekki bannaðir í Evrópu og héldu lögmenn bílaframleiðandans því fram að skaðabótakröfur ættu ekki rétt á sér þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×