Erlent

Þúsundir mótmæltu samfélagslegum takmörkunum á Spáni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá mótmælum gærdagsins í Madríd.
Frá mótmælum gærdagsins í Madríd. EPA/DANIEL PEREZ

Þúsundir mótmæltu í gær viðbrögðum spænskra stjórnvalda við faraldri kórónuveirunnar sem valdið getur Covid-19. Öfgahægriflokkur í landinu hvatti til mótmælanna.

Mótmælendur óku í gegnum höfuðborg Spánar, Madríd, og veifuðu spænska fánanum. Það var krafa þeirra að samfélagslegum takmörkunum í borginni yrði aflétt og að Pedro Sánchez, forsætisráðherra landsins úr flokki sósíalista, segði af sér embætti. Mótmælin, sem hvatt var til af öfgahægriflokknum Vox, byggja á því að takmarkanirnar sé til þess fallnar að fara illa með atvinnulíf og efnahag landsins.

Santiago Abascal, leiðtogi flokksins, leiddi mótmælin í opinni rútu. Hann var með andlitsgrímu og sagði ríkisstjórnina „beinlínis ábyrga fyrir verstu viðbrögðum við faraldrinum í öllum heiminum.“

Tæplega ein milljón Spánverja missti vinnuna í mars, og hagspár gera ráð fyrir því að efnahagur Spánar dragist saman um allt að 12 prósent á þessu ári sökum faraldursins.

Slakað var á helstu samfélagslegu takmörkunum í landinu um miðjan mars, en íbúar tveggja fjölmennustu borga Spánar, Madríd og Barcelona, hafa áfram mátt sæta harðari takmarkana, vegna fjölda kórónuveirutilfella innan þeirra. Á mánudag verður þó slakað á höftum þar, og fólki leyft að snæða utandyra og hittast í allt að tíu manna hópum.

Í gær tilkynnti Sánchez um tvenns konar fyrirhugaðar tilslakanir á samfélagslegum takmörkunum. Annars vegar sagði hann að knattspyrnuyfirvöld hefðu fengið grænt ljós á að hefja spænsku deildarkeppnina frá 8. júní og hins vegar að Spánn yrði opnaður fyrir ferðamönnum í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×