Erlent

Brúðhjónum bannað að kyssast

Andri Eysteinsson skrifar
Frá brúðkaupi í Sri Lanka árið 2013.
Frá brúðkaupi í Sri Lanka árið 2013. Getty/Buddhika Weerasinghe

Yfirvöld í eyríkinu Sri Lanka hafa aflétt takmörkunum sem settar voru til að berjast gegn faraldri kórónuveirunnar, á meðal afléttinga verður leyft að halda brúðkaup, þó verður kossaflens brúðhjóna bannað í athöfnum. Guardian greinir frá.

Brúðkaupsveislur í Sri Lanka eru jafnan mikið sjónarspil með miklum fjölda gesta og nokkurra daga veisluhöldum. Núgildandi reglur gera þó ráð fyrir því að athafnir og veislur verði í töluvert smærra sniði. „Gestir mega ekki, faðmast, kyssast eða heilsast með snertingum,“ segir í nýjum reglum heilbrigðisyfirvalda. Ekki fleiri en 100 gestir mega heiðra brúðhjónin með nærveru sinni en þeir verða að viðhalda eins metra bili á milli og skulu klæðast andlitsgrímum.

Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar greindist í Sri Lanka í lok janúar en 1.055 tilfelli og níu andlát hafa verið staðfest. Útgöngubann hefur verið í gildi í stærstu borg landsins, Colombo, í þrjá mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×