Viðskipti innlent

Flugmenn samþykktu kjarasamning með yfirgnæfandi meirihluta

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Félagsmenn Félags íslenskra atvinnuflugmanna samþykktu kjarasamning með yfirgnæfandi meirihluta. Atkvæðagreiðslu lauk klukkan fjögur í dag.
Félagsmenn Félags íslenskra atvinnuflugmanna samþykktu kjarasamning með yfirgnæfandi meirihluta. Atkvæðagreiðslu lauk klukkan fjögur í dag.

Flugmenn samþykktu kjarasamning við Icelandair með yfirgnæfandi meirihluta. Rafnrænni atkvæðagreiðslu lauk klukkan fjögur í dag. 

Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var afar góð en 96% félagsmanna tóku þátt. Af þeim sem tóku þátt sögðu rúm 96% já en 2,6% sögðu nei. 1,18% félagsmanna skiluðu auðu.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði á hluthafafundi félagsins í dag að það væri gríðarlega jákvætt skref að flugmenn hefðu samþykkt samninginn.

„Þetta er mikilvægt skref sem flugmenn stigu með félaginu,“ sagði Bogi í ræðu sinni á hluthafafundinum.

Eins og kunnugt er, er enn ósamið við flugliða félagsins en Bogi kvaðst bjartsýnn á að samningar takist á næstu dögum.

Unnið væri að sömu markmiðum í þeim samningum og gert var með flugmönnum og flugvirkjum; að auka framleiðni, sveigjanleika og samkeppnishæfni félagsins en að standa um leið vörð um lífskjör fólks.

„Það er mikil ánægja að sjá samstöðu okkar fólks á þessum erfiðu tímum. Icelandair er og verður mikilvægur hluti af efnahagslífi Íslands og hryggjarstykkið í öflugri viðspyrnu í kjölfar faraldursins sem lamað hefur flugsamgöngur undanfarna mánuði,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×