Íslenski boltinn

Eiður Smári skaut fast á sparkspeking Dr. Football en eyddi svo færslunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen er aðstoðarþjálfari íslenska 21 árs landsliðsins. Hér er hann í því starfi í leik á móti Englandi.
Eiður Smári Guðjohnsen er aðstoðarþjálfari íslenska 21 árs landsliðsins. Hér er hann í því starfi í leik á móti Englandi. Getty/Mike Egerton

Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins og núverandi aðstoðarþjálfari íslenska 21 árs landsliðsins, blandaði sér í gær í umræðuna um þau orð sem Mikael Nikulásson, þjálfari karlaliðs Njarðvíkur og sparkspekingur í Dr. Football, lét falla á dögunum.

Mikael Nikulásson talaði um það í hlaðvarpsþættinum Dr. Football að Anna Björk Kristjánsdóttir, nýr leikmaður Selfoss í Pepsi Max deild kvenna, væri á hærri launum en konur í fótbolta ættu að fá. Laun hennar væru hærri en margra í Pepsi Max-deild karla.

Ummælin féllu í mjög grýttan jarðveg ekki síst hjá íslenskum landsliðskonum sem hafa gagnrýnt Mikael mikið á samfélagsmiðlum.

Eiður Smári sagði svo sína skoðun á Twitter í gærkvöldi. Eiður Smári er með rúmlega 51 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlinum.

Vefsíðan Fótbolti.net sagði frá því að Eiður Smári ákvað að koma með orðagrín eða einhvers konar rímu á Twitter í gærkvöldi en hann eyddi síðar færslunni. Menn á Twitter misstu hins vegar ekki af henni og mynd af henni má sjá hér fyrir neðan.

„Sérfræðingur í fótbolta sem allt þykist vita...talaði með rassgatinu og úr því kom skita #drfootball #dontwannabelikemike" skrifaði Eiður en færsla hans fékk þó ekki að lifa mjög lengi.

Eiður Smári virðist hafa ætlað að ná til Mikaels og Hjörvars Hafliðasonar, umsjónarmanns hlaðvarpsþáttarins Dr. Football, því hann setti líka myllumerkið #drfootball og #dontwannabelikemike þar sem hann vitnar þar í lagið Be Like Mike sem kom fyrst fram í Gatorade auglýsingu með Michael Jordan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×