Íslenski boltinn

Tómas Ingi um aðalmarkvörð Breiðabliks: „Hann er líklega oft inn í reit“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anton Ari í leik með Val gegn Breiðablik á sínum tíma.
Anton Ari í leik með Val gegn Breiðablik á sínum tíma. Vísir/Eyþór

Í upphitunarþætti Stöðvar 2 Sport fyrir Pepsi Max deild karla ræddu þeir Guðmundur Benediktsson, Reynir Leósson og Tómas Ingi Tómasson um ákvörðun Breiðabliks að gefa það út að Anton Ari Einarsson, sem gekk í raðir félagsins síðasta haust frá Val, yrði óumdeildur aðalmarkvörður liðsins.

Umræðuna má sjá í spilaranum hér neðst í fréttinni.

„Gulli [Gunnleifur Gunnleifsson] tilkynnir að hann ætli ekki að samkeppni við Anton Ara um að vera markmaður númer eitt. Það var fréttatilkynning um að hann ætlaði að einbeita sér meira af því að vera þjálfari, má ég spyrja af hverju,“ sagði Gummi Ben og furðaði sig á því af hverju Breiðablik gaf þetta sérstaklega út.

„Mér finnst þetta alveg fáránlegt útspil að segja þetta svona. Gulli á bara að keppa við hann og sá sem er betri á að spila en við vitum að Óskar Hrafn (Þorvaldsson, nýráðinn þjálfari Blika), vill hafa markmenn sem spila bolta betur frá sér. Anton á náttúrulega eftir að sýna okkur að hann ráði við þetta verkefni hjá Blikum,“ sagði Tómas Ingi, sérfræðingur þáttarins.

„Við höfum séð Anton spila síðustu tímabil hjá Val og hann hefur aldrei virkað á mig sem einhver brassi í fótunum,“ sagði Gummi í kjölfarið áður en Tómas greip orðið.

„Hann er líklega oft inní í reit,“ sagði hann Tómas og glotti við tönn.

„Mér fannst hann oft vera í vandræðum í Valsliðinu og maður sá nokkra leiki þar sem hann var að tapa boltanum í öftustu línu eftir að vera að taka sénsa á að gera eitthvað sem honum leið ekkert sérstaklega vel með en ég er sammála Tomma með það að mér fannst þetta kjánaleg yfirlysing og það er eins og þetta sé eina staðan á vellinum þar sem það megi ekki vera samkeppni,“ sagði Reynir Leósson að lokum um málið.

Spjall þeirra félaga má sjá í heild sinni í spilarnum hér að neðan.

Klippa: Var það rétt hjá Blikum að lýsa yfir að Anton Ari væri markvörður númer eitt?

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×