Skoðun

Hökkum krísuna

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir skrifar

Ég þreytist aldrei á að minna okkur öll á mikilvægi þess að knýja á um nýsköpun og nýjar lausnir til að geta brugðist hratt við óvæntum áskorunum í samfélaginu. Við þurfum stöðugt að stokka spilin og spyrja nýrra spurninga. Virkja hugvitið og þekkingu til nýrra lausna.

Síðustu mánuðir hafa einnig kennt okkur margt, hversu miklu við getum náð fram með samhentu átaki. Við vorum nýsköpunarþjóð og við verðum það áfram með því að nýta krafta okkar öll sem eitt. Við búum í sterku og góðu samfélagi og eigum alltaf að hafa nýsköpun að leiðarljósi.

Nýsköpun er alltaf í forgangi í stjórnarráðinu og það sést vel í aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn COVID-19 heimsfaraldri. Í aðgerðaáætlun sem kynnt var í lok mars, var kveðið á um 150 milljón króna framlag í átaksverkefni í þágu nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Þetta átak er unnið í samvinnu nýsköpunarráðherra, heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra og er í umsjón verkefnastofu um Stafrænt Ísland. Í þessu átaksverkefni verður leitað til almennings, frumkvöðla og sprotafyrirtækja eftir nýsköpun og nýjar lausnum í heilbrigðisþjónustu. Verkefnið verður í þrem þáttum og fyrsti þáttur hefst nú í vikunni með hakkaþon viðburði, undir yfirskriftinni „Hack the crisis – Iceland“ sem haldinn verður dagana 22-25 maí. Markmið þessa viðburðar er að ná til þeirra sem hafa hugmyndir að bættri þjónustu og nýrri tækni í heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu, menntamálum, atvinnulífi og svo má áfram telja. Við höfum mikla trú á að þessari aðferð til að ná til fólks og virkja þá skapandi hugsun, það hugvit og þann mikla frumkvöðlakraft sem við vitum að er til staðar í samfélaginu og erum mjög spennt að sjá hvaða hugmyndir koma upp úr kössunum.

Við munum fylgja þessum viðburði eftir með Heilbrigðismóti, þar sem áfram verður leitað að nýskapandi lausnum í þágu heilbrigðisþjónustu og í þriðja fasa þessa verkefnis munu frumkvöðlar og sprotafyrirtæki í samvinnu við heilbrigðisstofnanir geta sótt um fjármögnun um nýskapandi lausnir í heilbrigðisþjónustu.

Með öflugu samstarfi heilbrigðisstéttarinnar og frumkvöðla náum við að koma fram með nýjar sterkar lausnir. Þetta mun ekki aðeins hjálpa okkur í baráttunni við þennan vágest sem nú herjar á okkur heldur skila sér einnig í betri, skilvirkari og nýskapandi heilbrigðisþjónustu á landsvísu.

Höfundur er ferðamála-, iðnaðar- og ferðamálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×