Viðskipti innlent

Kröfu þrotabús WOW air um gjaldþrotaskipti Títan hafnað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skúli Mogensen og félag hans hafði betur gegn þrotabúi WOW air.
Skúli Mogensen og félag hans hafði betur gegn þrotabúi WOW air. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að hafna kröfu þrotabús WOW air um að Títan fjárfestingafélag, sem var móðurfélag flugfélagsins, verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Ágreiningurinn sem fór fyrir Landsrétt nú snerist um hvort að þrotabúið ætti lögvarða kröfu á hendur Títan, sem er í eigu Skúla Mogensen, fyrrverandi eiganda og forstjóra WOW air.

 Byggði krafa þrotabúsins í þessu máli á því að það hafi höfðað mál til riftunar og endurgreiðslu ráðstöfunar til Títan sem átti sér stað 6. febrúar 2019, nokkrum vikum fyrir fall WOW air. Því ætti þrotabúið fjárkröfu á hendur Títan.

Umrædd ráðstöfun var rétt tæplega 108 milljón króna aðgreiðsla sem Cargo Express greiddi WOW air, sem aftur greiddi Títan. Töldu skiptastjórar að um væri að ræða riftanlega ráðstöfun. Þrotabúið hefur höfðað mál til riftunar greiðslunni en það mál hefur ekki verið til lykta leitt.

Í úrskurði Landsréttar segir að samkvæmt gögnum málsins sé krafan umdeild og því varhugavert að telja að þrotabúið hefði leitt nægjanlega í ljós tilvist kröfu sinnar þannig að unnt væri að fallast á að taka bú Títan til gjaldþrotaskipta. Var úrskurður Héraðsdóms í málinu því staðfestur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×