Innlent

Rekin upp úr heita pottinum í Mosfellsbæ

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessi mynd er tekin í Laugardalslaug í samkomubanninu. Í nótt var sú laug opnuð að nýju, líkt og aðrar laugar í Reykjavík, en í Mosfellsbæ verður ekki opnað fyrr en núna í morgunsárið.
Þessi mynd er tekin í Laugardalslaug í samkomubanninu. Í nótt var sú laug opnuð að nýju, líkt og aðrar laugar í Reykjavík, en í Mosfellsbæ verður ekki opnað fyrr en núna í morgunsárið. Vísir/Vilhelm

Upp úr klukkan hálfeitt í nótt barst lögreglunni tilkynnt um að fólk væri í sundi í óleyfi í einni af sundlaugum Mosfellsbæjar.

Að því er segir í dagbók lögreglu fór lögreglan á staðinn, rak fólkið upp úr heita pottinum og sagði þeim að nota sundlaugina á opnunartíma.

Það var nefnilega aðeins í Reykjavík sem sundlaugar voru opnaðar klukkan 00:01 í nótt þegar aftur mátti fara í sund eftir að samkomubann var sett á. Aðrar laugar munu opna nú í morgunsárið.

Í dagbók lögreglu er einnig greint frá bíl sem var stöðvaður á Suðurlandsvegi við Gunnarshólma um klukkan eitt í nótt. Voru ökumaður og farþegi handteknir og vistaðir í fangageymslu.

Er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda, vörslu fíkniefna, fara ekki að fyrirmælum lögreglu, ofbeldi gegn lögreglu og að hafa neitað að segja til nafns.

Þá fór farþeginn ekki að fyrirmælum lögreglu, tálmaði störf hennar og er grunaður um brot á lyfjalögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×