Fótbolti

UEFA með dag í huga fyrir úrslitaleik Meistaradeildar

Sindri Sverrisson skrifar
Enn á eftir að ljúka einvígi Real Madrid og Manchester City í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Enn á eftir að ljúka einvígi Real Madrid og Manchester City í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. VÍSIR/EPA

UEFA er með áætlun sem gengur út á það að úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu í fótbolta þetta árið verði leikinn 29. ágúst.

Þetta kemur fram í frétt BBC í kvöld. Þar segir að til standi að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fari fram 29. ágúst í Istanbúl en að úrslitaleikur Evrópudeildarinnar verði í Gdansk þremur dögum fyrr.

UEFA hefur boðað til fundar í næstu viku, 23. apríl, þar sem rætt verður um hvernig best sé að ljúka mótum sem nú eru í bið vegna kórónuveirufaraldursins. Samkvæmt BBC er líklegt að meðal annars verði ákveðið að leyfa deildum að blása keppni af án þess að öllum umferðum sé lokið. Hugmyndin er samt sem áður sú að stefnt verði að því að klára alla leiki og ljúka tímabilinu fyrir ágústlok.

UEFA er með tvær leiðir í huga til að ljúka Meistaradeildinni. Annars vegar að spila 8-liða úrslitin og undanúrslitin með sama hætti og venjulega, tvo leiki á milli liða, í júlí og ágúst. Hins vegar að láta einn leik nægja í hverju einvígi og klára þannig mótið á styttri tíma, jafnvel með aðeins vikulöngu móti. Enn á reyndar eftir að klára fjögur einvígi í 16-liða úrslitum, til að mynda rimmu Manchester City og Real Madrid.

Í Evrópudeildinni er dæmið enn snúnara því enn á eftir að klára öll einvígin í 16-liða úrslitum keppninnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×