Erlent

Hvetja einhleypa til að finna sér „kynlífsfélaga“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Par sést hér úti að borða í svokölluðu „sóttkvíargróðurhúsi“ í Amsterdam. Hver veit nema um kynlífsfélaga sé að ræða?
Par sést hér úti að borða í svokölluðu „sóttkvíargróðurhúsi“ í Amsterdam. Hver veit nema um kynlífsfélaga sé að ræða? Vísir/EPA

Hollensk stjórnvöld hafa gefið út sérstakar viðmiðunarreglur fyrir einhleypt fólk í leit að nánd meðan á samfélagslegum höftum vegna kórónuveirufaraldursins stendur. Þar er fólk hvatt til þess að finna sér „kynlífsfélaga,“ eins og það er orðað.

Lýðheilsu- og umhverfismálastofnun Hollands ráðleggur einhleypu fólki þannig að komast að samkomulagi við eina aðra manneskju um kynlíf. Þó er aðilum sem komið hafa á slíku sambandi ráðið frá því að stunda kynlíf ef grunur leikur á að annar þeirra eða báðir séu smitaðir af kórónuveirunni.

Í reglunum, sem birtar voru 14. maí, segir að það sé eðlilegt að einhleypt fólk sækist eftir líkamlegri nánd við aðra manneskju þrátt fyrir ástandið sem uppi er vegna faraldursins. Því er þó ráðlagt að gera ráðstafanir til þess að draga úr hættu á að smitast af veirunni.

„Ræðið hvernig best er að gera þetta saman,“ segir í reglunum. „Til dæmis, hittið sömu manneskjuna til þess að eiga náið samneyti eða stunda kynlíf með (til dæmis kúrufélagi eða „kynlífsfélagi,“) að því gefnu að þið séuð ekki smituð af veirunni.“

„Gerið góðar ráðstafanir með viðkomandi um hversu margar manneskjur þið hittið. Því fleiri sem þið hittið, því meiri hætta er á að kórónuveiran breiðist út.“

Hér má nálgast reglurnar, en þær eru þó á hollensku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×