Enski boltinn

Tuttugu ár síðan Íslendingalið Stoke vann Framrúðubikarinn á Wembley

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Þórðarson ásamt Peter Thorne og Graham Kavanagh sem skoruðu mörk Stoke City í úrslitaleik Framrúðubikarsins gegn Bristol City árið 2000.
Guðjón Þórðarson ásamt Peter Thorne og Graham Kavanagh sem skoruðu mörk Stoke City í úrslitaleik Framrúðubikarsins gegn Bristol City árið 2000. vísir/getty

Á þessum degi, 16. apríl, fyrir tuttugu árum stýrði Guðjón Þórðarson Stoke City til sigurs í Framrúðubikarnum, bikarkeppni neðri deildarliða á Englandi.

Þrír Íslendingar komu við sögu í úrslitaleiknum á Wembley þar sem Stoke vann 1-2 sigur á Bristol City. Bæði lið voru í ensku C-deildinni á þessum tíma.

Íslenskir fjárfestar keyptu meirihluta í Stoke fyrir 6,6 milljónir punda haustið 1999. Skömmu síðar var Guðjón ráðinn knattspyrnustjóri Stoke og íslenskum leikmenn fjölgaði hratt hjá liðinu.

Arnar Gunnlaugsson, Brynjar Björn Gunnarsson og Bjarni Guðjónsson voru í byrjunarliði Stoke í úrslitaleiknum gegn Bristol City. Bjarni kom mikið við sögu í leiknum og átti þátt í báðum mörkum Stoke.

Graham Kavanagh kom Stoke í 0-1 á 32. mínútu og þannig var staðan allt fram á 74. mínútu þegar Paul Holland jafnaði fyrir Bristol City. Átta mínútum síðar skoraði Peter Thorne sigurmark Stoke eftir undirbúning Bjarna og Kavanaghs.

Guðjón vann fimm bikartitla á árunum 1993-2000 sem þjálfari.vísir/getty

Rúmlega 75 þúsund áhorfendur voru á leiknum, þar af fjöldi Íslendinga. Þetta var einn af síðustu leikjunum á gamla Wembley sem var lokað í október 2000.

Þetta var annar sigur Stoke í bikarkeppni neðri deildarliða og fimmti bikartitill Guðjóns á þjálfaraferlinum.

Hann kvaddi Stoke eftir að hafa komið liðinu upp í B-deildina vorið 2002. Peter Coates keypti meirihluta í Stoke af Íslendingunum fjórum árum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×