Viðskipti innlent

Skúli segir allt til­búið og Play klárt í bátana

Atli Ísleifsson skrifar
Frá kynningarfundi Play í Perlunni þann 5. nóvember síðastliðinn.
Frá kynningarfundi Play í Perlunni þann 5. nóvember síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Skúli Skúlason, stjórnarformaður og aðaleigandi Play, segir að flugfélagið muni fara í loftið, allt vera tilbúið að þá vera klára í bátana.

Þetta segir Skúli í samtali við Mannlíf í morgun, en mikil óvissa hefur verið um framtíð Play eftir að það var kynnt til leiks á miklum fréttamannafundi í nóvember síðastliðinn. Hann segist bjartsýnn á framhaldið.

Skúli vill í samtali við blaðið ekki greina frá hverjir viðskiptafélagar hans séu, en í hópnum eru bæði þekktir og óþekktir fjárfestar. Búið sé að safna nægilegum fjölda til að „keyra flugfélagið áfram“, þó að ekki sé útilokað að fleiri fjárfestar bætist í hópinn.

„Play er að fara í loftið. Það er alveg ljóst og er bara spurning um dagsetningu. Hún ræðst svo bara aftur á ytri aðstæðum heldur en hitt,“ er haft eftir Skúla. Bætir hann við að búið sé að undirrita viljayfirlýsingu um leigu á þremur flugvélum til að byrja með.

Flogið til „skemmtilegra áfangastaða á nýlegum Airbus-vélum“

Play var kynnt til leiks á blaðamannafundi í Perlunni þann 5. nóvember síðastliðinn. Eftir kynninguna bárust hins vegar ekki miklar fréttir af félaginu, nema þá helst af kjaramálum starfsmanna, en Mannlíf hefur áður sagt frá því að Skúli, sem er einn eigenda flugþjónustufyrirtækisins Airport Associates, sé sá sem hafi haldið félaginu á floti síðustu mánuði.

Á heimasíðu félagsins segir að Play sé nýtt lággjaldaflugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi sem muni fljúga til „skemmtilegra áfangastaða á nýlegum Airbus flugvélum“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×