Erlent

Uppljóstrarinn í Clinton-hneykslinu látinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Linda Tripp ræðir hér við fjölmiðlafólk fyrir utan dómshús í Washington DC árið 1998,
Linda Tripp ræðir hér við fjölmiðlafólk fyrir utan dómshús í Washington DC árið 1998, AP/Khue Bui

Linda Tripp, sem lék lykilhlutverk í ákæruferlinu gegn Bill Clinton þáverandi Bandaríkjaforseta, er látin. Hún var sjötug. Hún starfaði fyrir varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna á tíunda áratugnum og vann sér það helst til frægðar að hafa hljóðritað samtöl hennar við Monicu Lewinsky, sem þá var starfsnemi í Hvíta húsinu, um samband hennar og Clinton.

Fjölskylda Tripp segir að hún hafi verið langveik og að andlát hennar megi ekki rekja til yfirstandandi kórónuveirufaraldurs, sem hefur komið harðast niður í Bandaríkjunum. Börn hennar minnast móður sinnar sem „sérstakrar manneskju“ og „frábærrar ömmu.“

Heimsbyggðin mun þó án efa minnast hennar sem eins helsta uppljóstrarans í líklega stærsta pólitíska hneyksli tíunda áratugarins. Upptökur Tripp af samtölum hennar og Monicu Lewinsky þóttu staðfesta með óyggjandi hætti að forsetinn hafi átt í kynferðislegu samneyti við starfsnemann. Hún lét upptökurnar í hendur rannsóknarnefndar sem hafði meint embættisbrot forsetans til skoðunar og var Clinton að endingu ákærður til embættismissis.

Aðspurð hvað vakti fyrir henni sagði Tripp jafnan að hún hafi viljað afhjúpa Clinton. Hún hafi talið forsetann vera kynferðisbrotamann sem herjaði á konur. Tripp sagðist þannig aðeins hafa séð eftir einu í öllu ferlinu - að hafa ekki brugðist fyrr við.

Lewinsky hugsaði Tripp þegjandi þörfina fyrir afhjúpanir hennar og taldi hana hafa farið á bakvið sig. „Ég hata Lindu Tripp,“ sagði Lewinsky meðal annars í réttarsal á tíunda áratugnum. Hún sendi Tripp hins vegar batakveðjur á Twitter í kvöld, áður en fregnir af andláti hennar bárust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×