Viðskipti innlent

Yfir helmings samdráttur hjá hótelum í mars

Eiður Þór Árnason skrifar
Gríðarlegur samdráttur hefur sést í fjölda ferðamanna hér á landi á stuttum tíma vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. 
Gríðarlegur samdráttur hefur sést í fjölda ferðamanna hér á landi á stuttum tíma vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.  Vísir/vilhelm

Verulegur samdráttur var í gistinóttum hótela í mars ef marka má bráðabirgðatölur Hagstofunnar. Samkvæmt þeim voru greiddar 181 þúsund gistinætur á hótelum í mánuðinum samanborið við 382 þúsund á sama tíma í fyrra. Um er að ræða tæplega 53% samdrátt milli ára. 

Samkvæmt sömu tölum var rúmanýting var um 25,3% samanborið við 56,8% í sama mánuði í fyrra. 

Fram kemur á vef Hagstofunnar að miklar breytingar hafi átt sér stað í ferðaþjónustu í marsmánuði og ætla megi að rúmanýting og fjöldi gistinátta hafi verið hærri í fyrri hluta mánaðar en lægri í þeim síðari.

Alla jafna birtir Hagstofan tölum um gistinætur ferðamanna á hótelum 30 dögum eftir að mánuði lýkur. Eru þær nú birtar mun fyrr en venjulega vegna mikillar ásóknar í gögnin. 

Af þessum sökum hafa færri hótel náð að skila inn gögnum til Hagstofunnar sem gæti haft áhrif á tölurnar. Hagstofan hefur þó reynt að vigta gögnin sem hafa borist til þess að reyna að leiðrétta fyrir mögulega skekkju. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×