Erlent

Framtíð ESB að veði í deilum um efnahagsleg viðbrögð

Kjartan Kjartansson skrifar
María Jesús Montero, talskona spænsku ríkisstjórnarinnar. Spánn og fleiri ríki sem hafa orðið illa úti í faraldrinum telja nauðsynlegt að ESB grípi til róttækari aðgerða til að hjálpa aðildarríkjunum. Framtíð sambandsins velti jafnvel á því hversu vel ríkin standi saman nú.
María Jesús Montero, talskona spænsku ríkisstjórnarinnar. Spánn og fleiri ríki sem hafa orðið illa úti í faraldrinum telja nauðsynlegt að ESB grípi til róttækari aðgerða til að hjálpa aðildarríkjunum. Framtíð sambandsins velti jafnvel á því hversu vel ríkin standi saman nú. Vísir/EPA

Spænskir ráðamenn vara við því að framtíð Evrópusambandsins sjálfs sé að veði ef aðildarríki þess ná ekki samkomulagi um efnahagslegar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins. Viðræður fjármálaráðherra ríkjanna um björgunarpakka fyrir löndin sem eru verst stödd fóru út um þúfur í nótt.

Samkomulag um neyðarlán til ríkisstjórna og fyrirtækja er sagt hafa strandað á deilum Ítala og Hollendinga um skilmála lánveitinga til evruríkja sem glíma við faraldurinn, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Fjármálaráðherrarnir funduðu í alla nótt en án árangurs.

María Jesús Montero, talskona ríkisstjórnar Spánar, segir að íbúar álfunnar missi traust á sambandinu standi aðildarríkin ekki saman í neyð sem hún líkir við síðari heimsstyrjöldina sem Spánverjar tóku raunar ekki þátt í.

„Við þurfum að aðstoða önnur ríki og þess vegna var Evrópusambandið upphaflega stofnað, á þeim tíma eftir bókstaflegt stríð, nú háum við stríð gegn faraldri,“ sagði Montero í sjónvarpviðtali á Spáni.

Í sama streng tók Luis Planas, landbúnaðarráðherra Spánar þar sem 14.555 manns hafa látið lífið í faraldrinum og hátt í 147.000 manns smitast.

„Þetta er lykilmálefni sem framtíð Evrópusambandsins veltur á,“ sagði Planas í útvarpsviðtali.

Til stendur þó að halda viðræðum evruríkjanna áfram á morgun og bæði Planas og Montero lýsa bjartsýni um gang þeirra.

Evrópusambandið hefur þegar aflétt takmörkunum á ríkisaðstoð og leyft aðildarríkjunum að auka skuldsetningu sína til þess að bregðast við efnahagslegum áhrifum faraldursins. Spánn, Frakkland, Ítalía og fleiri ríki telja þó ekki nógu langt gengið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×