Innlent

Andlát: Gissur Sigurðsson

Þórir Guðmundsson skrifar
Gissur Sigurðsson fréttamaður
Gissur Sigurðsson fréttamaður

Gissur Sigurðsson fréttamaður lést af veikindum á Landspítalanum í Fossvogi í fyrrinótt. Hann sagði morgunfréttir á Bylgjunni í aldarfjórðung. Ófáir landsmenn ólust upp við fréttaflutning Gissurar, sem hann gæddi lífi með hrjúfri og hlýrri rödd, einarðri fróðleiksfýsn og yfirgripsmikilli þekkingu á íslensku samfélagi.

Gissur fæddist 7. desember 1947 í Hraungerði í Flóa. Foreldrar hans voru Stefanía Gissurardóttir og séra Sigurður Pálsson vígslubiskup. Þau fluttu á Selfoss árið 1956 þegar Gissur var níu ára. Hann var næst yngstur af sjö systkinum.

Gissur hóf starfsferil sinn í blaðamennsku hjá Alþýðublaðinu um tvítugt. Hann varð fyrsti ritstjóri tímaritsins Sjávarfrétta og þótti flytja fréttir af sjávarútvegi af mikilli þekkingu enda hafði Gissur stundað sjómennsku á sínum yngri árum.

Í framhaldinu tók hann þátt í stofnun Dagblaðsins sem breyttist síðar í Dagblaðið Vísi og er í dag kallað DV.

Gissur Sigurðsson opnar formlega Gissurarstofu, eins og fréttastúdíó Bylgjunnar var nefnt, eftir flutning fréttastofunnar úr Skaftahlíð á Suðurlandsbraut.Vilhelm/Vísir

Ferill hans sem útvarpsmaður hófst hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins í kringum 1980 þar sem hann starfaði í 16 ár þar til hann flutti sig yfir á Bylgjuna. Hann sá um morgunfréttir Bylgjunnar við miklar vinsældir landsmanna, enda þekktur fyrir einstaka frásagnargáfu og húmor.

Hvort tveggja naut sín til fulls í Bítinu á Bylgjunni. Þar var hann daglegur gestur árum saman, óhræddur við að segja skoðanir sínar og gantast við umsjónarmennina, Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason.

Heimir ræddi við Gissur um ferilinn í ítarlegu viðtali á jóladag 2018 sem hlýða má á að neðan.

Gissur skilur eftir sig fjögur börn, eina stjúpdóttur og sjö barnabörn. Börn hans eru Guðbjörg útgefandi, Gissur Páll söngvari, Jón Grétar kvikmynda- og þáttagerðarmaður, Hrafnhildur myndlistarmaður og sýningarstjóri og Helga Auðardóttir sálfræðingur.

Gissur með þeim Heimi, Þráni og Gulla.

Starfsmenn fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar minnast Gissurar með mikilli virðingu og hlýju. Hann var óviðjafnanlegur fréttamaður og kær samstarfsmaður sem átti samleið með hlustendum morgunútvarps Bylgjunnar í 25 ár. Við vottum aðstandendum hans samúð okkar og kveðjum einstakan mann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×