Innlent

Íbúar í Hveragerði þurftu að moka sig út úr húsum sínum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Aftakaveður hefur verið víða landinu og einna verst á Suðurlandi. Þurftu íbúar Hveragerðis að moka sér leið úr húsum sínum. Helstu vegum var lokað enda ekkert ferðaveður á landinu.

Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa haft í nægu að snúast undanfarinn sólarhring vegna ófærðar. Fyrstu útköll bárust um klukka 20 í gærkvöld og snéru þau flest að föstum ökumönnum. Þungfært er á svæðinu og þurfa björgunarsveitir að notast við snjóbíla á beltum.

„Færðin er mjög slæm. Skaflar á vegum, þjóðvegum og mikið innanbæjar. Sérstaklega hér við ströndina,“ sagði Gunnar Ingi Friðriksson, hjá aðgerðarstjórn björgunarsveitar Árnessýslu.

Líkt og sjá má var skyggni slæmt.LANDSBJÖRG

Í myndbandinu má sjá hvernig færðin var á Suðurstrandarvegi klukkan 21 í gærkvöld. Þónokkur umferð var á svæðinu og skilyrði slæm.

Appelsínugul viðvörun er í gildi víðast hvar á landinu en á Höfuðborgarsvæðinu er viðvörunin gul. Norðaustan stormur er á landinu í dag og mikil sjókoma víða um land.

Ófögur sjón blasti við íbúa Hveragerðis þegar hann fór á fætur í morgun. Snjórinn hafði rutt sér leið inn á heimilið þrátt fyrir að dyrnar væru lokaðar.

Líkt og sést í sjónvarpsfréttinni þurfti íbúi bókstaflega að moka sér leið út úr húsnæði sínu, með kröftugu sniði.

Skemmdir urðu í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi. Þakið á garðskálanum fór að einhverju leyti og eins og sjá má féll snjór á plöntur sem byrjaðar voru að vora.

Ekkert ferðaveður er á landinu og mikið um vegalokanir.

Snjór féll á plöntur sem byrjaðar voru að vora.AÐSEND



Fleiri fréttir

Sjá meira


×