Fótbolti

'97-módelin fá að spila á Ólympíuleikunum

Sindri Sverrisson skrifar
Gabriel Jesus er fæddur 1997 og þarf ekki að taka eitt þriggja kvótasæta til að spila með Brasilíu á Ólympíuleikunum í Tókýó, þar sem liðið hefur titil að verja.
Gabriel Jesus er fæddur 1997 og þarf ekki að taka eitt þriggja kvótasæta til að spila með Brasilíu á Ólympíuleikunum í Tókýó, þar sem liðið hefur titil að verja. VÍSIR/GETTY

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur ákveðið að hækka aldurstakmarkið fyrir keppni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó sem færðir hafa verið til ársins 2021 vegna kórónuveirufaraldursins.

Reglurnar í fótbolta karla á Ólympíuleikum hafa verið þannig að liðin skuli vera skipuð leikmönnum 23 ára og yngri. Þannig áttu leikmenn fæddir eftir 31. desember 1996 að vera gjaldgengir fyrir leikana sem áttu að fara fram í sumar. Ákveðið hefur verið að miða áfram við sömu dagsetningu svo að '97-módelin megi spila á leikunum á næsta ári.

Eftir sem áður mega liðin tefla fram þremur leikmönnum sem eldri eru en aldurstakmörkin segja til um. Ekkert hámark er á aldri leikmanna í fótbolta kvenna á Ólympíuleikum.

Liðin sextán sem keppa í fótbolta karla á Ólympíuleikunum í Tókýó eru ríkjandi meistarar Brasilíu, Argentína, Frakkland, Þýskaland, Spánn, Rúmenía, Nýja-Sjáland, Egyptaland, Fílabeinsströndin, Suður-Afríka, Ástralía, Sádí Arabía, Suður-Kórea og gestgjafar Japans.

FIFA hefur einnig ákveðið að fresta tveimur lokakeppnum HM, hjá U20 og U17-landsliðum kvenna. U20-mótið átti að fara fram í Panma og Kosta Ríka í ágúst og september en U17-mótið átti að vera í Indlandi í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×