Viðskipti innlent

„Algjör einhugur“ á meðal flugfreyja að hafna útspili Icelandair

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það er lítið að gera hjá flugvélum Icelandair þessa dagana.
Það er lítið að gera hjá flugvélum Icelandair þessa dagana. Vísir/Vilhelm

Algjör einhugur er meðal félagsmanna FFÍ um að hafna útspili Icelandair frá 10. maí að því er fram kemur í tilkynningu frá Flugfreyjufélagi Íslands. Afstaða félagsmanna til tilboðs Icelandair var könnuð á fundi þeirra í hádeginu.

„Stjórn FFÍ kannaði afstöðu félagsmanna á fundi nú í hádeginu og eru félagsmenn með öllu mótfallnir því að umturna gildandi kjarasamningi á einu bretti og fórna kjörum og réttindum sem tekið hefur áratugi að byggja upp,“ að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

„Flugfreyjufélagið ítrekar samningsvilja sinn um að koma til móts við Icelandair á meðan núverandi ástand varir og er áfram tilbúið til samtals um sanngjarnar breytingar á gildandi kjarasamningi,“ segir ennfremur.

Í tillögum sem lagðar voru fram af Icelandair í kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands um helgina var farið fram á 18 til 35 prósenta launaskerðingu flugfreyja og flugþjóna hjá félaginu, að því er fram kom í athugasemdum FFÍ við tillögurnar sem fréttastofa hefur undir höndum.

Samninganefnd félagsins hafnaði tilboðinu en fyrirtækið óskaði eftir því að það yrði lagt fyrir félagsmenn og var það kynnt nú í hádeginu.

Það er alveg ljóst að félagsmenn eru mjög ósáttir við þetta og samstaðan er mjög mikil þannig að ég hef fulla trú að við stöndum fyrir þá afstöðu sem félagsmenn okkar eru með og neitum þessu tilboði,“ segir Guðlaug í samtali við fréttastofu fyrr í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×