Innlent

Bjarni segir eðli­legt að fyrir­tæki skili stuðningi stjórn­valda þegar betur árar

Heimir Már Pétursson skrifar
Stöð 2/Sigurjón

Fjármálaráðherra telur eðlilegt að fyrirtæki sem nýti stuðning stjórnvalda á uppsagnartímabili starfsmanna skili þeim fjámunum til baka þegar betur fer að ára. Fyrirtæki sem dreifi peningum til hluthafa reki rýting í samstöðuna með því að nýta sér stuðning stjórnvalda.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að hlutabótaleiðina fyrst og fremst hafa verið hugsaða til að verja ráðningasamband starfsmanna og fyrirtækja tímabundið og það hafi gengið eftir. Í lögunum séu heimildir til að ganga á eftir rökstuðningi fyrirtækja fyrir að nýta þessa leið. Hann reikni ekki með að skattframtöl þeirra allra verði skoðuð til að staðfesta þörfina.

Leiðtogar stjórnarflokkanna kynna efnahagsaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins.Vísir/Vilhelm

„Ég held að það sé eitthvað sem við ættum kannski miklu frekar að taka til skoðunar varðandi stuðning á uppsagnarfresti. Að fyrirtæki sem eiga von á slíkum stuðningi vegna uppsagna á starfsfólki að þau geti ekki átt væntingar um að hirða til sín allan ávinninginn af þessari aðstoð stjórnvalda. Það er í smíðum einmitt núna að skoða slík tilvik,” segir Bjarni.

Hlutabótaleiðin hafi hins vegar alls ekki verið hugsuð fyrir stöndug fyrirtæki sem greiði hluthöfum arð.

„Þau eru að reka rýting í í samstöðuna sem við erum að kalla eftir. Fyrirtæki sem augljóslega eru fjárhagslega sterk og geta verið að dreifa peningum til hluthafa sinna, þau eiga ekki að hafa það sem sitt fyrsta úrræði að leita til ríkisins til þess að standa undir launakostnaði starfsmanna sinna,” segir Bjarni.

Það þurfi hins vegar ekki að vera óeðlilegt að öflug fyrirtæki sem missi bróðurpart tekna sinna tímabundið og ekki greiða arð nýti þessa leið.

Icelandair hefur bæði nýtt sér hlutabótaleiðina og sagt upp starfsfólki og fær styrk til að greiða uppsagnarfresti.Vísir/Vilhelm

Fjármálaráðherra segir stjórnvöld reiðubúin að koma Icelandair til aðstoðar umfram almennu aðgerðirnar. Þar komi ýmsar leiðir til greina. Jafnvel að ríkið kaupi hlut í félaginu. það sé þó sísti kosturinn að hans mati. En fyrst þurfi Icelandair að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins með núverandi og jafnvel nýjum hluthöfum.

„Ég myndi vilja segja í framhaldi sem við vorum að tala um. Ef Icelandair nýtir sér ríkulega þennan stuðning á uppsagnarfresti finnst mér að við ættum að skoða að smíða það úrræði þannig að þeir muni skila þeim stuðningi til baka ef þeir eru komnir í hagnað innan einhverra ára, þriggja til fimm ára eða eitthvað slíkt. Það finnst mér mjög eðlilegt,” segir fjármálaráðherra.

Upp á framtíð Icelandair skipti mestu að verja leiðarkerfi fyrirtækisins sem hafi lagt grunninn að ferðaþjónustunni og að áfram verði til staðar fyrirtæki sem byggi á norðuratlantshafsflugi með Keflavík sem miðstöð.

„Það er sú staða fyrst og fremst sem við erum að hugsa um að verja. Við erum ekkert að hugsa um hag hluthafanna eða annarra kröfuhafa í Icelandair. Það er í sjálfu sér algert aukaatriði.”

Ef stjórnvöld geti stigið inn án of mikillar áhættu fyrir skattgreiðendur eigi þau að gera það.

„Vegna þess að það getur tekið óskaplega langan tíma að byggja þetta upp og hagkerfið allt fer í dýpri niðursveiflu ef þetta glutrast allt niður. Vonandi eru himnarnir að fara að opnast sem fyrst aftur,” segir Bjarni Benediktsson.


Tengdar fréttir

„Reka rýting í samstöðuna sem við erum að kalla eftir“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að þau tilfelli þar sem fyrirtæki sem hafi verið að greiða sér arð en jafnframt nýta sér hlutabótaleið stjórnvalda séu allt annars eðlis en lagt var upp með þegar úrræðinu var komið á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×