Erlent

Bestu geimljósmyndir ársins 2019

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Júpíter í allri sinni dýrð
Júpíter í allri sinni dýrð Mynd/NASA/JPL-CALTECH/SWRI/MSSS/KEVIN M. GILL

Árið sem nú er að líða var ágætlega gjöfult þegar kom að verkefnum í geimnum og fjöldi ljósmynda frá geimförum og sjónaukum hér á jörðu niðri af plánetum og öðru sem flýtur um í geimnum litu dagsins ljós. BBC hefur tekið saman lista yfir bestu ljósmyndir ársins

Myndin hér að ofan var tekin af geimfarinu Juno sem náð hefur mögnuðum myndum af Júpíter frá því að geimfarið litla komst þangað árið 2016. Myndin hér að ofan er samsett úr fjórum ljósmyndum sem Juno tók þann 29. maí en þann dag komst Juno „mjög nærri“ skýjahjúp plánetunnar, eða á bilinu 18,6 þúsund kílómetra til 8,6 þúsund.

Hér að neðan má einnig sjá aðra mynd frá Juno af Júpíter.

Nærmynd af JúpíterMynd/KEVIN MCGILL/NASA/JPL-CALTECH/SWRI/MSSS

Geimfarið New Horizons færði mannkyninu magnaðar myndir af Plútó þegar það kíkti í heimsókn árið 2015. Að því loknu var geimfarið sent í Kuiper-beltið, kleinuhringslaga svæði handan Neptúnusar í um það bil 30 til 55 stjarnfræðieininga (4,5 til 8 milljarða kílómetra) fjarlægð frá sólinni.

Þar finnast ýmsir smáhnettir, þar á meðal þetta fyrirbæri  sem sjá má hér að neðan. Vísindamenn kölluðu það fyrst MU69, síðar Ultima Thule og að lokum Arrokoth. New Horizons tók þessa fallega mynd af fyrirbærinu, sem lítur út eins og snjókarl. Um er að ræða íshnetti sem rákust saman.

Arrokoth, áður Ultima Thule.Mynd/NASA/JHUAPL/SWRI/T. APPERE

Ofurrisinn Eta Carinae er í um 7,5 þúsund ljósára fjarlægð frá jörðinni. Á Stjörnufræðivefnum segir að stjarnan sé „án nokkurs vafa með stórbrotnustu stjörnum himinhvolfsins og í vetrarbrautinni okkar.“

Auðvelt er að taka undir þá staðhæfingu eftir að NASA birti myndina hér að neðan sem líkja má við flugeldasýningu út í geimnum. Frekari fróðleik um Eta Carinae má nálgast á Stjörnufræðivefnum.

Eta Carinae í allri sinni dýrð.NASA/ESA/N. SMITH/J. MORSE

Marsfarinn Curiosity hefur verið að kanna plánetuna Mars frá árinu 2012. 

Curiosity tók þessa sjálfsmynd þann 12. maí síðastliðinn en alls er myndin samsett úr 57 myndum úr myndavél sem ber nafnið Mars Hand Lens Imager sem staðsett á Curiosity.

Curiosity tekur sig vel út á Mars.Mynd/NASA/JPL-CALTECH/MSSS

Kínverjar brutu blað í geimsögunni þegar þeir lentu Chang'e 4, ómönnuðu geimfari, á fjarhlið tunglsins þann 3. janúar, en það var í fyrsta sinn sem slíkt tekst. Chang'e 4 lenti á Suðurpóls-Aitken-dældinni og vélmenni um borð tók til við rannsóknir á jarðlögum og yfirborði tunglsins á þessum hluta sem snýr ávallt frá jörðu.

Kínverjar sendu geimfar á tunglið.Mynd/Clep

Fleiri myndir má sjá vef BBC auk þess sem að VOX í Bandaríkjunum valdi nýlega fimmtán bestu geimljósmyndir áratugarins.

Seglið góða.Mynd/PLANETARY SOCIETY

Tengdar fréttir

Mars-jeppi prófaður á hálendi Íslands

Rannsóknarbúnaður sem notaður verður á Mars er til prófunar á hálendi Íslands. Tilgangurinn er að prófa vél- og hugbúnað fyrir svokallaðan Mars-jeppa sem verður notaður í leiðangri til reikistjörnunnar á næsta ári.

Mældu útþensluhraða alheimsins með nýrri aðferð

Íslenskur stjarneðlisfræðingur tók þátt í rannsókn sem beitti nýrri aðferð til að mæla Hubble-fastann svonefnda, mælikvarða á hraða útþenslu alheimsins sem varpar ljósi á uppruna og örlög hans.

Toppurinn sprakk af geimfari SpaceX

Um er að ræða frumgerð geimskipsins Starship og var verið að þrýstiprófa geimfarið með því að líkja eftir þeim mikla kulda sem geimferðir fela í sér.

Telja sig hafa fundið lendingarfarið á tunglinu

Starfsmenn Geimvísindastofnunar Indlands telja sig hafa fundið tunglfar þeirra sem týndist eftir að samband tapaðist við það við skömmu fyrir lendingu á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×