Fótbolti

Ari Freyr klár um miðjan janúar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ari Freyr í leik með Íslandi gegn Belgíu á Laugardalsvelli.
Ari Freyr í leik með Íslandi gegn Belgíu á Laugardalsvelli. Vísir

Ari Freyr Skúlason, bakvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem og belgíska félagsins Oostende, hefur verið á meiðslalistanum síðan hann meiddist í leik Íslands og Móldóvu í nóvember síðastliðnum. Hann segir í viðtali við Morgunblaðið að hann verði klár í slaginn þegar vetrarfríinu lýkur í Belgíu.

Ari Freyr meiddist í 2-1 sigri Íslands gegn Móldóvu þann 17. nóvember og þrátt fyrir að klára leikinn hefur hann verið að glíma við meiðsli síðan. Hann reyndi að spila næsta leik Oostende gegn Club Brugge en meiðslin tóku sig upp og hefur bakvörðurinn knái nú misst af síðustu fimm leikjum belgíska liðsins.

Í viðtalinu við Morgunblaðið sagði Ari að stór rifa á lærvöðva væri ástæðan fyrir veru hans á meiðslalistanum. Slík meiðsli þýða almennt fjórar til sex vikur frá keppni og ætlar Ari ekkert að storka fótboltaguðunum með því að flýta sér til baka.

„Ég tek ekki neina áhættu með því að spila síðasta leikinn fyrir frí,“ sagði Ari og þar með ljóst að hann missir af leik Oostende gegn Charleroi þann 27. desember. Hann stefnir hins vegar á það að vera klár þegar lið hans mætir Waasland-Beveren þann 18. janúar.

Íslenska landsliðið mætir Rúmenum í umspili um laust sæti á EM 2020 þann 26. mars og er ljóst að Ari Freyr ætti að vera leikfær þegar þar að kemur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×